Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Tveir í haldi eftir árás á Baghdadi

29.10.2019 - 01:33
epa07904649 US President Donald J. Trump, left, shakes hands with US Army General Mark A. Milley, Chairman of the Joint Chiefs of Staff, right, as he participates in a briefing with senior military leaders in the Cabinet Room of the White House in Washington, DC, USA, 07 October 2019.  EPA-EFE/Ron Sachs / POOL
Donald Trump og Mark Milley. Mynd: EPA
Tveir menn eru í haldi Bandaríkjahers eftir árás sérsveitar á fylgsni Abu Bakr al-Baghdadis, leiðtoga hryðjuverkasveitanna sem kenna sig við íslamskt ríki, um helgina. Mark Milley, yfirmaður herforingjaráðs Bandaríkjanna, segir þá í strangri öryggisgæslu. Engar frekari upplýsingar voru veittar um mennina.

Hann greindi einnig frá því að herinn hafi losað sig við lík Baghdadis og engin áform séu uppi um að sýna árásina sem leiddi til dauða leiðtogans. Milley sagði að myndir og myndbönd af aðgerð Bandaríkjahers yrðu nú skoðuð og athugað hvort þau séu hæf til birtingar. Milley staðfesti einnig að bandarískir hermenn verði áfram í Sýrlandi til að gæta olíulinda frá vígamönnum íslamska ríkisins. 

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, varði í gær ákvörðun sína um að greina átta þingmönnum sem lögum samkvæmt eiga að fá upplýsingar um leynilegar hernaðaraðgerðir ekki frá aðgerðinni. Hann sagðist hafa verið hræddur um leka, og benti þar sérstaklega á Adam Schiff, þingmann Demókrata og formann leyniþjónustunefndar fulltrúadeildar Bandaríkjaþings. Hann sagði Schiff vera þann mann sem leki mestu úr Washington. Að sögn BBC sýndi Trump þó ekki neinar sannanir fyrir ásökunum sínum í garð Schiff.