Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Tveir hafa ákveðið forsetaframboð

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Þorgrímur Þráinsson og Elísabet Jökulsdóttir ætla að bjóða sig fram í embætti forseta Íslands. Bæði staðfestu þetta við fréttastofu, og hefur Elísabet meira að segja opnað framboðssíðu.

Þorgrímur sagði í viðtali á Morgunvaktinni á Rás eitt milli jóla og nýárs að það væru 95% líkur á að hann byði sig fram. Þorgrímur sagði í samtali við fréttastofu í dag að ákvörðun Ólafs Ragnars breytti engu, hann væri áfram staðráðinn í því að bjóða sig fram. „Ég hélt reyndar að Ólafur Ragnar myndi bjóða sig fram aftur,“ segir hann. Þegar hann var spurður hvort hann ætlaði að bjóða sig fram svaraði hann því afdráttarlaust játandi. 

Elísabet Jökulsdóttir rithöfundur tilkynnti framboð sitt á Facebooksíðu sinni í gær og opnaði svo nýjan framboðsvef í dag. Hún sagðist hafa hætt við framboð en skipt um skoðun í gær. Hún ætlar meðal annars að koma upp trampólínum á Bessastöðum, meðal annars til að bjóða börn velkomin þangað. 

Fleiri hafa verið orðaðir við framboð og hefur fréttastofa haft samband við nokkra þeirra í dag.

Stefán Jón Hafstein, umdæmisstjóri hjá Þróunarsamvinnustofnun í Úganda, segir að ákvörðun hans um framboð hafi ekkert haft með fyrirætlanir Ólafs Ragnars að gera. „Mér finnst þetta góð ákvörðun hjá honum en ég er í framboði á allt öðrum forsendum. Ég er enn að hugsa málið,“ sagði Stefán Jón. 

Í sama streng tekur Hrannar Pétursson ráðgjafi, sem síðast var í tímabundnum verkefnum hjá forsætisráðuneytinu. Hann segir einnig að ákvörðun hans hafi ekki staðið og fallið með því hvort Ólafur Ragnar héldi áfram. „Fréttir dagsins breyta sannarlega landslaginu, þar sem ekki ríkir lengur óvissa um framtíð sitjandi forseta. Hitt er óbreytt, að það er stór ákvörðun að bjóða sig fram til embættis forseta Íslands. Hún krefst mikils undirbúnings og vandlegrar vinnu hjá þeim sem vilja kynna sig fyrir þjóðinni - hugmyndir sínar um embættið og helstu mál sem brenna á fólki. Ég er vissulega að íhuga málið og skoða frá ýmsum hliðum, en það er ekki tímabært að lýsa yfir framboði.“

Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstri grænna segist hafa svarað þessari spurningu reglulega í fjölmiðlum, og hennar afstaða sé óbreytt. „Ég hef engar áætlanir um að fara í framboð - slíkt hefur alls ekki verið í deiglunni.“ Spurð nánar sagðist hún þó ekki vilja útiloka það ef eitthvað breyttist, en í dag væru ekki áætlanir um það.

Jón Gnarr dagskrárstjóri á 365 miðlum og fyrrverandi borgarstjóri hafði áður vísað því á bug að hann færi í framboð en gaf svo í skyn í viðtali í DV að honum gæti snúist hugur. „Eigum við ekki bara að segja að ég sé að hugsa málið?“ segir Jón.

Þá hafa margir skorað á Bergþór Pálsson söngvara að bjóða sig fram. Hann hins vegar aftók það að hann væri á leið í framboð. Hann hefði ekki persónulegan metnað í það embætti auk þess sem ýmis verkefni framundan torveldi það.

Halla Tómasdóttir, einn stofnanda Auðar Capital, lýsti því yfir fyrir mánuði að hún ætlaði að taka sér frest til að taka ákvörðun um forsetaframboð. Ekki náðist í hana í dag. Þá náðist heldur ekki í Ólaf Jóhann Ólafsson rithöfund, sem einnig hefur verið orðaður við framboð.

Þessi listi er ekki tæmandi yfir þá sem orðaðir hafa verið við forsetaframboð í næstu kosningum, en þær fara fram 25. júní næstkomandi.