Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Tveir dýrgripir frá miðöldum í heimsókn

Tveir dýrgripir frá miðöldum í heimsókn

05.07.2018 - 19:45

Höfundar

Tvö af merkustu handritum Íslendinga frá miðöldum voru flutt til landsins í dag frá Kaupmannahöfn og verða til sýnis hér næstu mánuði. Guðrún Nordal, forstöðumaður Árnastofnunar, segir þetta dýrgripi og það sé vissulega freistandi að skila þeim ekki aftur til Danmerkur.

Vorið 1971 komu fyrstu tvö handritin til Íslands, Flateyjarbók og konungsbók Eddukvæða, en þau höfðu fram að því verið varðveitt í Kaupmannahöfn. Talið er að tíu til fimmtán þúsund manns hafi verið við höfnina þegar danska varðskipið Vædderen kom að landi og danskir sjóliðar fluttu handritin í land. Nokkru færri voru í Leifsstöð í dag, þegar tvö af helstu miðaldahandritunum voru flutt heim í öruggri vörslu starfsmanna Árnastofnunar. Sérsveit ríkislögreglustjóra tók svo við þeim og flutti í Árnagarð.

Ormsbók, sú ljósari eftir að hafa verið þvegin upp úr keytu, er eitt af höfuðhandritum Snorra-Eddu. Reykjabók Njálu er elsta og heillegasta handrit sögunnar. Árni Magnússon eignaðist bæði handritin í Kaupmannahöfn snemma á átjándu öld. „Reykjabók er frá upphafi fjórtándu aldar og Ormsbók frá því um miðja fjórtándu öld. Þannig að þetta eru rúmlega 700 ára gömul verk. Og hvernig er að vera búin að fá þau í hendur? Þetta er mjög merkileg stund og ég er dálítið djúpt snortin, ég er í dálítilli geðshræringu eiginlega. En þetta er einstakt að fá þau hér til láns, þau eru bara að koma í heimsókn,“ segir Guðrún.  

Hún segir vissulega freistandi að skila þeim ekki aftur en þau verða hér í nokkra mánuði. Handritin verða til sýnis í Listasafni Íslands á sýningunni Lífsblóminu, sem verður opnuð 18. júlí, í tilefni af aldarafmæli fullveldis Íslands. Guðrún segir rithöndina ólíka því sem við eigum að venjast. Það taki þó stuttan tíma að komast upp á lagið með að lesa textann. „Ég vona að unga fólkið taki þeim fagnandi og sjái þau. Það er dálítið annað að lesa bara texta í nútímaútgáfu, það er svo merkilegt að sjá frumtextann. Þetta eru verk sem voru skrifuð fyrir sjö hundruð árum af fólki sem lagði mikið í sölurnar til að búa þessi verk til. Þetta eru dýrar bækur, hvert einasta handrit er sérstakt, það er ekkert eitt handrit eins og annað þannig að þetta eru allt dýrgripir, hvert og eitt einasta og veröld, heimar sem opnast við að opna hvert einasta handrit.“