Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Tveir bankar verði í eigu ríkisins

20.10.2015 - 09:17
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Mynd: RÚV / RÚV
Ef tillögur kröfuhafa Glitnis verða að veruleika eru þar með tveir bankar aftur í ríkiseigu. Guðlaugur Þór Þórðarson, varaformaður fjárlaganefndar, segir að ekki standi til að ríkið eigi Íslandsbanka. Fjármunir fyrir sölu bankans fari í að greiða skuldir ríkissjóðs.

Tilkynnt var um tillögu kröfuhafa á vef fjármálaráðuneytisins klukkan fjögur í nótt. Kröfuhafar Glitnis vilja afsala öllu hlutafé Glitnis í Íslandsbanka til stjórnvalda sem hluta af stöðugleikaframlagi. Ríkið eignast þar með Íslandsbanka að fullu, en ríkið átti fyrir 5% hlut í bankanum

Á vefsíðu fjármálaráðuneytisins segir að framkvæmdahópur um losun fjármagnshafta telji þessar aðgerðir falla að stöðugleikaskilyrðum stjórnvalda og verði þær að veruleika séu forsendur fyrir undanþágu frá gjaldeyrishöftum. Steinunn Guðbjartsdóttir formaður slitastjórnar Glitnis vildi ekki tjá sig um málið þegar eftir því var leitað í morgun.

Mikilvægast að greiða niður skuldir
Guðlaugur Þór Þórðarson, varaformaður fjárlaganefndar, segir að tillagan hafi verið kynnt fyrir þingflokki Sjálfstæðisflokks í gær. Hann segist ekki sérlega hrifinn af því að bankinn verði í ríkiseigu en það sé hugsanlega nauðsynlegt skref í afnámi hafta. „Þetta er staða sem gat alltaf komið upp, og það er mjög líklegt núna að hún muni koma upp,“ sagði Guðlaugur Þór í samtali við Morgunútvarpið á Rás 2 í morgun. „Það eru bæði kostir og gallar, ég hefði helst viljað að bankinn væri í öðrum höndum heldur en ríkisins en hins vegar er náttúrulega stóra einstaka málið það er að aflétta gjaldeyrishöftunum eins og mögulegt er og ef það er ekki hægt með öðrum hætti en þessum þá er það bara þannig. Það eru gríðarleg verðmæti í þessum banka sem ríkið fær þá í hendurnar.“

Eigið fé bankans nam um 185 milljörðum króna í lok júní á þessu ári. „Aðalatriðið er það að þeir fjármunir sem fáum í tengslum við þetta, að þeir verði allir nýttir til að greiða niður skuldir. Vegna þess að skuldirnar eru það sem eru, ég bara ítreka það að þriðji stærsti útgjaldaliður ríkissjóðs eru vaxtagreiðslur,“ segir Guðlaugur Þór. 

Fresturinn að renna út
Fram kom í fréttum RÚV í gær að tímaramminn, sem slitabú föllnu bankanna hafi til að senda fullbúnar beiðnir um undanþágur frá gjaldeyrishöftum, þrengist mjög. Frestur slitabúa föllnu bankanna til að ná nauðasamningum og uppfylla skilyrði um undanþágur frá gjaldeyrishöftum rennur út um áramót, það er eftir tvo og hálfan mánuð. Annars fellur stöðugleikaskattur upp á 39% á búin. Fullyrt var í frétt Bloomberg í gær að ólíklegt væri að stjórnvöld féllust á þær tillögur sem slitabúin höfðu áður sent Seðlabankanum, um að greiða samtals ríflega 330 milljarða króna í stöðugleikaframlag.

Slitastjórn Kaupþings hefur ekki, svo vitað sé, lagt fram nýjar tillögur að stöðugleikasamkomulagi. Fjölmiðlafulltrúi slitastjórnar Kaupþings sagðist ekki geta sagt neitt að svo stöddu um hvort slíkt stæði til. Fjármálaráðherra sagðist í samtali við Morgunblaðið í morgun ekki gera ráð fyrir slíku útspili varðandi eignarhlut í Arion banka.