Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Tveir af þremur urðu sendiherrar

22.11.2014 - 11:46
Mynd með færslu
 Mynd:
Tveir af þeim þremur ráðherrum sem hafa sagt af sér við svipaðar aðstæður og Hanna Birna Kristjánsdóttir, fráfarandi innanríkisráðherra, hafa orðið sendiherrar. Allir sátu þeir um nokkurra ára skeið á Alþingi eftir afsögnina en enginn varð ráðherra á nýjan leik.

Hanna Birna er fjórði ráðherrann í lýðveldissögunni sem segir af sér eftir að hafa sætt harðri gagnrýni fyrir störf sín á ráðherrastóli. Albert Guðmundsson varð fyrstur til þess árið 1987, Guðmundur Árni Stefánsson vék af ráðherrastóli sjö árum síðar og Björgvin G. Sigurðsson snemma árs 2009. Allir sátu þeir áfram sem þingmenn og allir náðu þeir endurkjöri.

Sendiherrar í París og Svíþjóð
Albert skipaði fyrsta sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík þrátt fyrir afsögn sína sem ráðherra. Hann sagði hins vegar skilið við flokkinn eftir að Þorsteinn Pálsson, þáverandi flokksformaður, tilkynnti að hann yrði ekki aftur ráðherra á vegum flokksins. Albert stofnaði Borgaraflokkinn sem hlaut sjö þingsæti í kosningum vorið 1987, meira en nokkur annar flokkur utan fjórflokksins hefur gert. Rúmum tveimur árum síðar hætti Albert á þingi, um það leyti sem Borgaraflokkurinn gekk til liðs við ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar, og varð sendiherra Íslands í Frakklandi.

Guðmundur Árni vék af ráðherrastóli hálfu ári fyrir kosningar sem fram fóru 1995. Hann sat á Alþingi í áratug eftir það, fram til ársins 2005 þegar hann var skipaður sendiherra í Svíþjóð. Hann er nú sendiherra í Washington en flyst um set um áramót þegar Geir H. Haarde fyrrverandi forsætisráðherra tekur við embættinu.

Björgvin G. Sigurðsson baðst lausnar sem ráðherra rétt áður en stjórn Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins sprakk í janúar 2009. Hann hlaut efsta sætið á framboðslista Samfylkingarinnar fyrir þingkosningar um vorið og sat á þingi í fjögur ár. Hann féll af þingi í síðustu kosningum.

Nokkrir sneru aftur eftir afsögn af öðrum ástæðum
Þó eru dæmi um að þingmenn sem sögðu af sér ráðherradómi yrðu aftur ráðherrar. Þar má nefna Ögmund Jónasson, þingmann Vinstri-grænna. Hann baðst lausnar sem heilbrigðisráðherra á síðasta kjörtímabili vegna andstöðu við Icesave-samninginn. Hann sneri síðar aftur í ríkisstjórn sem innanríkisráðherra. Björn Bjarnason hætti sem menntamálaráðherra árið 2002 til að leiða framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Hann varð síðar dóms- og kirkjumálaráðherra.

[email protected]