Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Tveimur mótmælendum vísað af þingpalli

02.09.2019 - 11:12
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Birgir Þór Harðarson
Færri komust að en vildu á þingpöllum Alþingis í morgun til að fylgjast með þingheimi greiða atkvæði um þriðja orkupakkann. Tveimur mótmælendum hefur verið vísað af þingpöllum vegna hrópa og kalla meðan á þingfundi stendur.

25 gestir komast á pallana hverju sinni. Þegar þingfundur hófst í morgun sátu mótmælendur í öllum sætunum. Þeir sem komust ekki að biðu við gestainngang Alþingis. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Sigríður Dögg Auðunsdóttir

Tveimur hefur verið vísað út síðan þingfundur hófst rétt fyrir ellefu. Annar þeirra kallaði að Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, formanni Viðreisnar að þriðji orkupakkinn væri landráð. Guðjón S. Brjánsson, fyrsti varaforseti Alþingis, stoppaði hann og bað gesti góðfúslega að hafa hljóð á þingpöllum. Lögregla vísaði konu nokkru seinna frá.

Þá hefur verið boðað til mótmæla á Austurvelli. Þau verða formlega sett klukkan tólf á hádegi. Nú þegar er fjölmennt á Austurvelli.

Guðjón sagði áður en þingfundur hófst að hann vissi ekki til þess að gæsla hefði verið efld í þinginu vegna mótmælanna. Hann sagði jafnframt að öllum sé velkomið að hlýða á umræðurnar á pöllum þingsins en um það gildi ákveðnar reglur. Bannað sé að hafa sig í frammi meðan á þingfundi stendur. 

Fréttin og fyrirsögnin hefur verið uppfærð.

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Frá þingfundi í morgun.
holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV