Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Tveimur bjargað á Fimmvörðuhálsi

05.07.2010 - 01:54
Mynd með færslu
 Mynd:
Björgunarsveitir voru kallaðar út í gærkvöld til að leita að tveimur mönnum sem villtust við Fimmvörðuháls. Þeir voru komnir í algjöra sjálfheldu á hættulegum stað á barmi Hvannárgils. Mennirnir ætluðu að skoða eldstöðvarnar frá gosinu sem var þar í vor en þá skall á þoka og þeir villtust af leið. Þeir ákváðu þá að halda kyrru fyrir og kalla eftir aðstoð.

Björgunarsveitarmenn og þyrla Landshelgisgæslunnar voru kölluð út og voru björgunarsveitarmenn í sambandi við mennina. Nokkurn tíma tók að finna hvar þeir voru niðurkomnir en þegar það lá fyrir sótti þyrlan þá og flutti þá í Bása heila á húfi. Að sögn lögreglu eru báðir mennirnir vanir fjallgöngumenn en hins vegar getur þokan skollið á með skömmum fyrirvara á þessu svæði, og það kom mönnunum í þessi vandræði.

Ingi Bragason skálavörður í Básum segir að mennirnir hafi náð að gera vart við sig með litlu vasaljósi sem björgunarsveitarmenn komu auga á.