Björgunarsveitir voru kallaðar út í gærkvöld til að leita að tveimur mönnum sem villtust við Fimmvörðuháls. Þeir voru komnir í algjöra sjálfheldu á hættulegum stað á barmi Hvannárgils. Mennirnir ætluðu að skoða eldstöðvarnar frá gosinu sem var þar í vor en þá skall á þoka og þeir villtust af leið. Þeir ákváðu þá að halda kyrru fyrir og kalla eftir aðstoð.