Tuttugu milljarða tekjur af Airbnb í fyrra

11.04.2018 - 06:24
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Tekjur af leigu í gegnum vefinn Airbnb jukust um 109 prósent hér á landi á síðasta ári, miðað við árið á undan. Alls námu tekjur leigusala á Airbnb hér á landi 19,4 milljörðum íslenskra króna í fyrra. Þetta kemur fram í skýrslu Íslandsbanka um íslenska ferðaþjónustu sem greint er frá í Morgunblaðinu í dag.

Sá leigusali sem velti mestu hér landi í fyrra var með 230 milljónir í tekjur og 46 rými til útleigu. Samanlagðar tekjur tíu tekjuhæstu leigusalanna voru 1,3 milljarður króna. Útleiga á gistirými í gegnum Airbnb nemur nú um 27 prósentum af markaði með gistirými. Hótel eru með 37 prósent og gistiheimili 12 prósent.  

Í skýrslunni segir einnig að umfang deilihagkerfisins hafi vaxið mun hraðar á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu á síðustu tveimur árum. 18.000 gistinætur voru seldar á landsbyggðinni árið 2015. Árið 2017 voru þær 1,3 milljónir, að því er greint er frá í Morgunblaðinu í dag.

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir