Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Tuttugu lög sem liggja til allra átta

Mynd með færslu
 Mynd: pixabay.com

Tuttugu lög sem liggja til allra átta

02.08.2019 - 15:10

Höfundar

Eflaust eru þeir margir sem ætla að nota tækifærið og bregða undir sig betri fætinum um verslunarmannahelgina. Hvort sem fólk stefnir nú í ferðalag, á útihátíð, tjaldbúskap eða bara að rölta fram í eldhús þá er mikilvægt að fara varlega, brosa framan í aðra og umfram allt að hafa skemmtilega tónlist í eyrunum.

Verslunarmannahelgin er framundan og framboð af hvers kyns skemmtilegum viðburðum fyrir alla fjölskylduna er heilmikið og víða um land. Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum er mögulega sá áfangastaður þessa helgi sem er hve vinsælastur en á hátíðinni Ein með öllu á Akureyri er líka veglega dagskrá fyrir alla fjölskylduna og sömuleiðis á hinu sígilda Síldarævintýri á Siglufirði. Neistaflug er á sínum stað í Neskaupstað, Unglingalandsmót UMFÍ á Höfn í Hornafirði, Mýrarboltinn í forinni í Bolungarvík hefur sótt í sig veðrið síðustu árin og Innipúkinn sem nú er haldinn á nýjum stað í Reykjavík.

Sú gamla góða vísa er aldrei of oft kveðin að fólk skuli nú ekki gleyma góða skapinu áður en lagt er í hann og fari varlega yfir. Einkum og sér í lagi ef fólk er í umferðinni. Þá er ekki minna mikilvægt að tónlistin sé þægileg og skemmtileg og gefi tóninn fyrir góða og gæfuríka helgi. Hér fyrir neðan má sjá skemmtilegan ferðalagalista sem settur hefur verið saman sérstaklega fyrir verslunarmannahelgina. Lagalistinn inniheldur nýja sumarsmelli í bland við sígild íslensk lög sem öll eru sérstaklega sniðin fyrir fólk á ferðinni.

Nokkur laganna bera þess keim að hafa orðið til á rúntinum, Ég er á leiðinni með Brunaliðinu, Þjóðvegurinn í flutningi Elínar Ey, Keyra með Herra Hnetusmjöri og Bílavísur í flutningi Bjarkar af plötunni Gling gló. Önnur lög eru til þess fallin að hlusta á þegar farið er um sérvalin svæðum landsins, hækka skal duglega í Mýrdalssandi með GCD þegar fólk ekur undir jökul, Sveitin milli sanda er þarna líka. Vegir liggja til allra átta vissulega og ef einhver ætlar að rata um Kjöl þá er Óbyggðirnar kalla skemmtilegt og Hossa hossa örugglega viðeigandi. París norðursins er heilmikið stuðlag og tilvalið fyrir þá sem ætla út að hlaupa á Flateyri, Húsið og ég með Grafík skal spilast ef vera skyldi að rigni í grennd við Ísafjörð og nágrenni og þá eru Skýin með Spilverki þjóðanna rökrétt framhald.

Njótum vel og hækkum hæfilega, látum þó ekki tónlistina trufla fókusinn ef við sitjum við stýrið. Munum einnig að njóta náttúrunnar og samvista með öðrum. Góða helgi.  

Tengdar fréttir

Popptónlist

Fimm vel feit fyrir verslunarmannahelgina

Tónlist

Tíu taumlausar útihátíðir um versló

Tónlist

Þessi lög skaltu hafa á hreinu í brekkunni

Tónlist

Ein með öllu í dalnum og drullunni um helgina