Tungumálatöfrar í þriðja sinn í Edinborgarhúsi

06.08.2019 - 15:25
Frá skrúðgöngu Tungumálatöfra 2017
 Mynd: Tungumálatöfrar
Tungumálatöfrar er árlegt tungumálanámskeið þar sem lagt er upp úr listsköpun og leik á námskeiðinu með töfra sem þema. Námskeiðið er sérstaklega ætlað fjöltyngdum börnum sem hafa fæðst, búið erlendis eða eru af erlendum uppruna.

Í ár taka um 40 börn af tíu þjóðernum þátt í Tungumálatöfrum. Þau eiga öll það sameiginlegt að íslenska er eitt þeirra tungumála sem þau tala.

Um helmingur barnanna heima í Ísafjarðarbæ en hin koma ýmist erlendis frá eða frá öðrum landshlutum. Haft er eftir Vaidu Bražiūnaitė, verkefnastjóra Tungumálatöfra, í fréttatilkynningu að námskeiðið sé að þróast mjög skemmtilega.

„Kennararnir eru allir með bakgrunn sem listamenn og kennsluaðferðirnar markast af því. Börnin læra íslensku í gegnum söng og myndlist og í ár bættist töframaður við í kennarahópinn og þema ársins er töfrar og töfrabrögð,“ segir Bražiūnaitė.

Anna Hildur Hildibrandsdóttir, forsvarsmaður verkefnisins, segir sumar fjölskyldur hafa leitað lengi að tungumálanámskeiði sem þessu fyrir börnin sín. Þátttaka í námskeiðinu hefur aukist mikið með ári hverju. Það fer nú fram í þriðja sinn.

Tungumálatöfrum lýkur með töfragöngu sem er opin öllum. Hún verður gengin frá Edinborgarhúsinu á laugardag klukkan 11.

elsamd's picture
Elsa María Guðlaugs Drífudóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi