Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Tunglleiðangur kostar 2.500 - 3.750 milljarða

16.06.2019 - 05:43
Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Bandaríska geimvísindastofnunin, NASA, áætlar að kostnaður við að senda mannað geimfar til tunglsins og lenda því þar nemi á bilinu 20 til 30 milljörðum Bandaríkjadala, eða 2.500 - 3.750 milljörðum króna. NASA hefur að undanförnu kynnt áform sín um að senda mannað geimfar til tunglsins áður en árið 2024 rennur sitt skeið.

Jim Bridenstine, yfirmaður NASA, greindi frá áætluðum kostnaði við að gera hana að veruleika í viðtali við CNN fréttastöðina. Þetta kallar á að framlög til stofnunarinnar verði hækkuð um 4 - 6 milljarða dala, 500 - 750 milljarða króna, á ári á þessum fimm árum. Heildarframlög til stofnunarinnar nema um það bil 2.500 milljörðum á ári eins og er. Bridenstine viðurkenndi jafnframt að þessi upphæð gæti hæglega orðið enn hærri, enda um flókið og viðamikið verkefni að ræða.

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV