Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Tunglleiðangur Indverja mistókst

06.09.2019 - 22:46
epa07733336 Indian Space Research Organisation (ISRO) orbiter vehicle 'Chandrayaan-2', India's first moon lander and rover mission planned and developed by the ISRO GSLV MKIII-M1, blasts off from a launch pad at Satish Dhawan Space Centre in Sriharikota, in the Southern Indian state of Tamil Nadu, India, 22 July 2019. The mission to the moon was launched successfully on 22 July 2019 from Sriharikota using the country's most powerful rocket Geosynchronous satellite Launch Vehicle (GSLV) Mark III.  EPA-EFE/STRINGER
Chandrayaan 2 skotið á loft 22. júlí. Mynd: EPA-EFE - EPA
Tunglleiðangur Indverja virðist hafa misheppnast en geimflaugin Chandrayaan 2 átti að lenda á suðurpól tunglsins í dag. Geimfarinu var skotið á loft frá indversku geimvísindastofnuninni 22. júlí. Mánuði síðar heppnaðist að beina farinu á braut um tunglið og fyrir þremur dögum tókst aðskilnaður hinna tveggja hluta fullkomlega.

Við lendinguna kom hins vegar babb í bátinn og þegar geimflaugin átti einungis 2,1 kílómetra eftir á yfirborð tunglsins þegar stjórnstöð indversku geimvísindastofnunarinnar, ISRO, missti allt samband við geimfarið. Hefði leiðangurinn heppnast hefði Indland verið fjórða ríkið sem tækist að lenda geimfari á tunglinu, á eftir Bandaríkjunum, Rússlandi og Kína.

 Ekki er vitað hvað fór nákvæmlega úrskeiðis en upphaflega gekk aðflug flaugarinnar eftir áætlun. Mögulegt sé að geimfarið hafi lækkað flugið of hratt og því lent of harkalega á yfirborði tunglsins. Forsætisráðherra Indlands, Narendra Modi, hélt stutta ræðu í stjórnherbergi ISRO eftir að ljóst var að flaugin myndi ekki ná að lenda. Þar sagði hann að þó flaugin hafi ekki náð á áfangastað sé um mikið afrek að ræða og bað viðstadda um að vera hugrakka. Ekki sé úti um geimferðaævintýri Indverja.

Þetta er ekki í fyrst sinn sem geimfarið Chandrayaan 2 lendir í vandræðum en upphaflega geimskotinu, sem átti að eiga sér stað þann 14. júlí, var aflýst vegna tæknilegra örðugleika. Alls hefur leiðangurinn verið í undirbúningi í um áratug. 

Í myndbandinu hér að neðan má fylgjast með stöðunni í stjórnherbergi ISRO og aðdraganda tungllendingarinnar.