Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Tún Bessastaðabónda verða að votlendi

15.07.2016 - 19:50
Mynd: RÚV / RÚV
Hafist var handa við endurheimt votlendis í dag í samræmi við áætlun stjórnvalda í loftlagsmálum. Tún Bessastaðabónda voru þau fyrstu sem urðu fyrir valinu. Forseti Íslands, umhverfisráðherra og landgræðslustjóri tóku sig til í dag og mokuðu mold í skurð í landi Bessastaða.

Heldur óvenjuleg sjón blasti við í túnfætinum á Bessastöðum í dag þar sem forseti Íslands, umhverfisráðherra og landgræðslustjóri tóku sig til og mokuðu mold ofan í skurð. Þessi táknræna athöfn sýnir verkefnið sem er fram undan, að vinda ofan af þeirri miklu framræsingu mýra sem var hér á árum og öldum áður þegar skortur var á túnum. 

„Gleymum því ekki að Bessastaðir voru og eru að nokkru leyti enn bújörð ekki bara embættisbústaður forsetans og skurðirnir hérna á nesinu sýna hvað var gert vítt og breitt um landið hér á fyrri tíð þegar menn töldu þetta í senn nauðsynlegt og eðlilegt. Þannig að mér finnst það í senn gott fyrir staðinn og túnin og náttúrna og fuglalífið að forsetaembættið taki þátt í þessu,“ segir Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands.

Samtals verður endurheimt votlendi á sex og hálfum hektara bæði í Músavík og Sauðavík í landi Bessastaða. 

„Þetta er af vísindamönnum okkar talinn stór liður varðandi loftslagsmálin að binda koltvísýring,“ segir Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra. Hún segir að ekki sé ætlunin að endurheimta alla mýrar sem framræstar hafa verið og ekki það land sem unnt sé að nýta með góðum hætti til landbúnaðar.

Endurheimt votlendis er samstarfsverkefni forseta Íslands, umhverfis- og auðlindaráðuneytis og landgræðslunnar. Skóflufyllingin í dag og undirritunin var líklega síðasta formlega embættisathöfnin á Bessastöðum í forsetatíð Ólafs Ragnars Grímssonar. „Þegar ég er að fara héðan frá Bessastöðum þá finnst mér það skemmtilegt og ánægjulegt og í takt við það sem hefur verið kjarninn í minni hugsjónabaráttu í áratugi, að geta tekið þátt í þessari hvatningu og þessu fyrsta skrefi að við Íslendingar ætlum að fara endurheimta votlendið á þann hátt sem við hófum hér á Bessastöðum í dag,“ segir Ólafur Ragnar.