HSBC bankinn ætlar að skera niður 35 þúsund störf um allan heim á næstu þremur árum. Það þýðir að um það bil fimmtán prósent starfsfólksins missa vinnuna.
Hagnaður bankans í fyrra dróst saman um þriðjung frá árinu 2018 og við því þarf að bregðast að því er fjölmiðlar hafa eftir Noel Quinn, æðsta yfirmanni bankans. Hagnaðurinn í fyrra var eigi að síður á fjórtánda milljarð dollara fyrir skatta. Gefin hefur verið út afkomuviðvörun vegna hugsnalegra áhrifa sem COVID-19 veiran kann að hafa á reksturinn í Asíu.
HSBC bankinn starfar í 64 löndum. Stefnt er að því að um það bil 200 þúsund manns vinni hjá fyrirtækinu að þremur árum liðnum.