Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Tugþúsundir kröfðust afsagnar Babis

23.06.2019 - 23:12
Mynd: EBU / EBU
Tugir þúsunda komu saman í miðborg Prag í dag til þess að krefjast afsagnar forsætisráðherrans Andrej Babis. Mótmælendur segjast komnir með nóg af spillingu sem Babis er sakaður um og stjórnarhætti hans. Skipuleggjendur mótmælanna og nokkrir tékkneskir fjölmiðlar telja um 250 þúsund hafa komið saman í miðborg höfuðborgarinnar.

Milljarðamæringurinn Babis var ákærður í fyrra í tengslum við fjársvik vegna tveggja milljóna evra styrks frá Evrópusambandinu. Endurskoðun framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins leiddi í ljós hagsmunaárekstra Babis sem forsætisráðherra og frumkvöðull. Fyrr í júní sögðu tékknesk stjórnvöld að gallar væru í endurskoðun ESB og Babis lætur sig hvergi hreyfast.

Mila Stiburkova, einn mótmælenda, segir í samtali við AFP fréttastofuna að fólk sé komið með nóg af hegðun Babis og hvernig hann heldur á stjórnvelinum. „Okkur líkar ekki hvernig hann kemur peningi í eigin vasa og blekki fólk sem treystir honum.

Babis leiðir miðju-popúlistaflokkinn ANO sem hlaut mujög góða kosningu árið 2017. Flokkurinn myndaði minnihlutastjórn með Sósíaldemókrötum með stuðningi Kommúnista. Babis var sjálfur kommúnisti á árum áður, og er fyrsti stjórnmálamaðurinn frá falli kommúnismans árið 1989 til þess að hleypa þeim aftur í stjórnarhlutverk í Tékklandi.

Spillingarrannsóknin á hendur Babis snýst um búgarð í hans eigu. Hann er sakaður um að hafa fært búgarðinn út úr fjárfestingarfélagi sínu til þess að hann gæti fengið styrki frá Evrópusambandinu. ESB rannsakar einnig hagsmunaárekstra vegna stöðu Babis sem stjórnmálamaður og frumkvöðull, auk þess sem forsætisráðherrann er sakaður um að hafa verið leynilögregla í tíð kommúnistastjórnarinnar í Tékkóslóvakíu á níunda áratugnum.