Tugir myrtir í malískum þorpum

19.06.2019 - 06:46
Mynd með færslu
Flóttafólkið í Tassalit-búðunum kemur frá eyðimerkurhéruðum í norðurhluta Malí. Þar hefur verið róstusamt undanfarin misseri Mynd: EPA
Yfir 40 létu lífið í árás á tvö þorp Dogon-veiðimannaþjóðarinnar í Malí á mánudagskvöld. Þjóðin býr í miðhluta landsins, og hefur átt í blóðugum erjum við hirðingjaþjóðina Fulani.

Guardian hefur eftir yfirvöldum í Malí að menn á mótorhjólum hafi ráðist á þorpin Yoro og Gangafani 2. Issaika Ganame, bæjarstjóri Yoro, segir árásarmennina hafa verið um hundrað talsins. Þeir hafi umkringt þorpið og svo skotið á þorpsbúa, áður en þeir færðu sig um set til Gangafani 2 sem er í um 15 kílómetra fjarlægð. 24 létu lífið í Yoro og 17 í Gangafani 2. Ekki hafa verið borin kennsl á árásarmennina.

Í síðustu viku drápu vígamenn 35 manns í þorpi Dogonþjóðarinnar, og er talið fullvíst að árásarmennirnir hafi verið Fulani-hirðingjar. Í mars voru yfir 150 myrtir í þorpum Fulaniþjóðarinnar þar sem Dogon-vígamenn eru taldir hafa verið að verki. Það er ein blóðugasta árás sem gerð hefur verið í Malí á síðustu árum.

Stjórn Ibrahim Boubacar Keita hefur heitið því að afvopna vígasveitir í landinu. Það hefur ekki tekist til þessa, að einhverju leyti vegna þess að þorpsbúar og smærri samfélög í landinu líta til vígasveita eftir vernd.

Franskar hersveitir voru sendar til Malí árið 2013 til þess að halda aftur af uppgangi íslamista í norðurhluta landsins. Síðustu ár hefur vígahreyfingum tekist að hreiðra um sig í norður- og miðhluta landsins þaðan sem þær undirbúa árásir víða um land og ýta undir ágreining mismunandi þjóðarbrota í landinu.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi