Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Tugir lítra af olíu í Blautulón

09.08.2011 - 16:45
Langferðabílinn, sem sökk ofan í Blautulón á föstudag, er kominn á þurrt land. Tugir lítra of olíu láku úr honum í vatnið. Samkvæmt þjóðgarðsverðinum er ekki um það mikið magn að ræða að hafa þurfi af því miklar áhyggjur.

Bílinn þurfti að hífa upp á háan bakka, um sex metra frá fjöruborðinu. Hann var ekki fyrr kominn á land en lögregla lagði hald á ökurita sem bílinn var búinn. Ekki hefur verið lagt mat á skemmdir en ljóst er að bílinn er illa farinn. Hann er á fjórum hjólum og til stendur að koma honum upp á vörubílspall og flytja hann til byggða í dag. Björgunarstarfinu er því lokið en hreinsunin er eftir.

Búið er að ná eigum farþeganna sem voru um borð úr bílnum, en þar á meðal voru vegabréf og myndavélar.

Langferðabíllinn hefur áður lent í umferðaróhappi á hálendinu. Í september í fyrra lenti hann í samstuði við jeppa í blindbeygju við Landmannalaugar. Fréttastofu barst í dag athugasemd frá ferðaskrifstofunni Adventura í Tékklandi. Þar segir að jeppinn hafi verið á 100 kílómetra hraða en rútan á um 30 kílómetra hraða og sveigt vel til hægri til að forða árekstri við jeppann. Lögreglan á Hvolsvelli, sem rannsakaði atvikið á sínum tíma, segir hins vegar báða bílana hafa verið á litlum hraða. Þá var talið augljóst að rútan hefði ekið á öfugum vegarhelmingi í beygjunni. Ökumaður jeppans, sem var dæmdur hundrað prósent rétti, segist hafa náð að forða lífi sínu með því að svipta bílnum upp í kantinn og fleygja sér yfir í farþegasætið.