Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Tugir látnir eftir árás á herskóla í Líbíu

04.01.2020 - 23:45
epaselect epa04364577 Smoke fills the sky over Tripoli after fighting between militias of 'Libya Fajr' (Dawn of Libya) and 'Karama' (Dignity) in Tripoli, Libya, 23 August 2014. Rrival militias have been fighting since mid-July in the
Daglega geisa bardagar í Benghazi. Mynd: EPA
28 hafa fundist látnir og tugir særðir eftir loftárás á herskóla í Tripoli, höfuðborg Líbíu, í dag. AFP fréttastofan hefur þetta eftir Amin al-Hashemi, talsmanni heilbrigðisráðuneytis alþjóðlega viðurkenndra stjórnvalda í landinu. Nemarnir voru saman komnir á lóð skólans á leið til herbergja sinna þegar árásin var gerð. Skólinn er í íbúðahverfi í borginni.  

Stanslaus átök hafa verið í suðurhluta höfuðborgarinnar síðan í apríl í fyrra, þegar herstjórinn Khalifa Haftar hóf árás á viðurkennd stjórnvöld. Pólitísk upplausn hefur verið í landinu allt frá því að Moammar Gaddafi var tekinn af lífi eftir uppreisn árið 2011. Stjórnvöld hafa síðan staðið í stappi við vopnaðar sveitir sem hafa sölsað undir sig austurhluta landsins. Stjórnvöld saka menn Haftars um að hafa gert árásina í dag, en þeir hafa ennn ekki lýst yfir ábyrgð á árásinni.

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna ítrekaði ákall sitt um vopnahlé í Líbíu í desember. Jafnframt voru erlend ríki beðin um að virða vopnasölubann til landsins. Jórdanir, Tyrkir og Sameinuðu arabísku furstadæmin hafa ítrekað virt það bann að vettugi, samkvæmt skýrslu Sameinuðu þjóðanna sem AFP fréttastofan hefur séð.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV