Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Tugir látnir eftir að rúta valt ofan í gljúfur

24.12.2019 - 06:21
Mynd: EBU / EBU
Minnst 25 eru látin og 13 slösuð eftir að rúta valt niður gljúfur í Indónesíu í gærkvöld. Tugir voru um borð í rútunni þegar hún valt niður 150 metra gljúfrið og endaði ofan í á, hefur AFP fréttastofan eftir Dolly Gumara, talsmanni lögreglu. 

Slysið varð á afskekktum vegi nærri bænum Pagar Alam. Björgunarfólk var þegar flutt á staðinn til að koma fólki úr rútunni, en aðstæður eru erfiðar. Kafarar voru fengnir til að leita í ánni. Lögregla og björgunarsveitir leituðu meðfram ánni, því óttast er að einhverra sé saknað.

Um 27 farþegar voru í rútunni þegar hún lagði af stað frá Bengkulu héraði. Þaðan var förinni heitið til Pagar Alam. Farþegar sem komust lífs af tjáðu lögreglu að um 50 manns hafi verið um borð í rútunni þegar slysið varð. Því er ekki alveg ljóst hvort, og þá hversu margra er saknað.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV