Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Tugir grindhvala heimsækja höfnina í Rifi

18.08.2018 - 16:14
Mynd með færslu
 Mynd: Hafþór Svanur Svansson
Nokkuð stór grindhvalavaða gerði sig heimakomna í hafn­argarðinum við Rif á Snæ­fellsnesi í dag. Mbl.is greindi fyrst frá, en fréttaritari miðilsins telur ólík­legt að þarna séu sömu hvalir á ferð og urðu inn­lyksa í Kolgrafaf­irði fyrr í mánuðinum, þar sem nú séu kálfar með í för.

Hafþór Svanur Svansson í Lífsbjörg, björgunarsveitinni sem rekur hvalina nú á haf út, telur að hvalirnir séu um áttatíu. „Við erum komnir með þá vel út fyrir höfnina, þeir eru á beinni siglingu út á haf.“

Hann segir að fólk hafi fyrst orðið vart við hvalina um hádegisbil en Lífsbjörg verið kölluð út um þrjúleytið. „Það gekk erfiðlega að koma þeim út fyrir hafnargarðana en þetta er talsvert auðveldara núna. Við erum komnir með þá beint út á Breiðafjörðinn,“ segir Hafþór. „Við ætlum að fylgja þeim aðeins út fyrir Hellissand og meta síðan stöðuna,“ bætir hann við.

Hafrún Ævarsdóttir, Hafnarvörður í Rifi og björgunarsveitarkona, segir að heimsóknir eins og þessar séu ekki óþekktar. „Við fengum tvær stærri grindhvalavöður inn fyrir hafnargarðinn í fyrra,“ segir hún. „Þá sóttu hvalirnir meira upp í fjöru og fólk þurfti beinlínis að ýta þeim af landi. Nú syntu þeir þarna fyrir utan og virtust ekki leita í land,“ segir Hafrún.

Vagn Ingólfsson sá til hvalanna og setti eftirfarandi myndband á Facebook.

Matthías Tryggvi Haraldsson
Fréttastofa RÚV