Tshisekedi réttkjörinn forseti Austur-Kongó

20.01.2019 - 01:12
Mynd með færslu
 Mynd:
Stjórnlagadómstóll Austur-Kongó úrskurðaði í kvöld að Felix Tshisekedi, leiðtogi stjórnarandstæðinga, væri réttkjörinn forseti landsins. AFP fréttastofan greinir frá. Fyrr í kvöld hafnaði dómstóll í ríkinu kröfu um að úrslitum kosningana yrði hnekkt. Dómarinn, Noel Kilomba, sagði Martin Fayulu, sem laut í lægra haldi fyrir Tshisekedi, að hann hafi ekkert fært fram til að sanna að svindlað hafi verið í kosningunum.

Raddir utan Austur-Kongó hafa einnig mælst til þess að birtingu lokaniðurstöðu forsetakosninganna verði frestað. Þeirra á meðal er Afríkusambandið, sem vill að rannsakað verði í kjölinn hvort einhver maðkur sé í mysunni. Moussa Faki Mahamat, framkvæmdastjóri Afríkusambandsins, og forseti þess um þessar mundir, Paul Kagame, forseti Rúanda, hyggjast fara til Austur-Kongó eftir helgi til að koma á framfæri efasemdum um að bráðabirgðaniðurstaða forsetakosninganna sé rétt.

Bráðabirgðaniðurstöður sýndu öruggan sigur Tshisekedi, sem hlaut rúmlega 60 af hundraði atkvæða. Fayulu telur víst að hann ætli að deila völdum með fráfarandi forseta, Joseph Kabila, sem var við völd í 18 ár.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi