Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Trylltir kettir í Húnaþingi

Mynd með færslu
 Mynd:

Trylltir kettir í Húnaþingi

20.03.2014 - 20:51
Talið er að kettir hafi komið til Íslands með landnámsmönnum á tíundu öld. Fyrstu íslensku landnámskettirnir mörkuðu þó ekki djúp spor í söguna. Katta er sjaldan getið í Íslandssögunni og fornbókmenntum. En í einni af Íslendingasögunum má þó finna heilan kafla þar sem kettir koma mikið við sögu.

Lemúrinn fjallar um ketti í Íslandssögunni. 

Vatnsdæla saga fjallar um landnámi Ingimundar gamla í Vatsndal í Húnaþingi og afdrif afkomenda hans, Vatnsdælinga. Um miðbik sögunnar þurfa þeir Þorsteinn og Jökull Ingimundarsynir að kljást við óspektarmann nokkurn í dalnum, sem ver bæ sinn með nokkuð óvenjulegum hætti:


Nú skal segja frá þeim manni er hét Þórólfur sleggja. Hann gerðist hinn mesti óspektarmaður. Bæði var hann þjófur og þó um annað stórilla fallinn. Þótti mönnum með stórmeinum hans byggð og einkis ills örvænt fyrir honum. Og þótt hann hefði eigi fjölmenni hjá sér þá átti hann þá hluti er hann vænti trausts að. Það voru tuttugu kettir. Þeir voru ákaflega stórir og allir svartir og mjög trylltir.


Þegar Ingimundarsynir safna liði til að ráða niðurlögum Þórólfs sleggju segir hann: „Nú er við gestum að taka og ætla eg þar til köttu mína og mun eg setja þá alla í dyr út og mun seint ráðast inngangan ef þeir verja dyrnar.“

Hann magnar svo kettina upp svo þeir verða „stórum illilegir með emjun og augnaskotum“.

 

Þorsteinn kom að dyrum og mælti: "Útgöngu beiðum vér þig Þórólfur."

Hann kvaðst ætla að það eitt mundi erindi þeirra að eigi væri vingjarnlegt. Þá tóku kettirnir þegar að amra og illa láta.

Þorsteinn mælti: "Þetta er ill sveit."

Jökull svarar: "Göngum inn að þeim og hirðum eigi um köttu þessa."

 

Hlustið á alla söguna hér að ofan. Allan kattaþátt Lemúrsins má svo nálgast hér.

Fylgist líka með Lemúrnum á Facebook og á Lemúrinn.is.