Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Trump vill hitta Kim til að „segja halló“

29.06.2019 - 00:24
epa07679873 US President Donald Trump reacts during the official family picture at a cultural event at the Osaka Geihinkan, during the G20 summit in Osaka, Japan, 28 June 2019. The leaders of the world's largest economies gathered in Osaka for the fourteenth meeting of Group of Twenty (G20).  EPA-EFE/LUKAS COCH  AUSTRALIA AND NEW ZEALAND OUT
 Mynd: EPA-EFE - AAP
Donald Trump, Bandaríkjaforseti, segist gjarnan vilja heilsa upp á Kim Jong-un, leiðtoga Norður Kóreu, þegar hann bregður sér til Suður Kóreu í næstu viku. Trump er á leiðtogaráðstefnu G20-ríkjanna í Osaka í Japan og mun halda þaðan til Seúl, þar sem þeir Moon Jae-in, forseti Suður Kóreu, ætla að ráða ráðum sínum.

„Eftir nokkra mjög mikilvæga fundi, þar á meðal fund minn með Xi Kínaforseta, fer ég frá Japan til Suður Kóreu (með Moon forseta). Á meðan ég er þar, ef Kim formaður í Norður Kóreu sér þetta, þá myndi ég vilja hitta hann við landamærin/á hlutlausa svæðinu bara til að taka í hendina á honum og segja halló (?)!" skrifaði Trump á Twitter í kvöld.

Þetta óvænta tilboð forsetans kemur í framhaldi af endurnýjuðum og vaxandi samskiptum stjórnvalda í Washington og PjongJang, eftir nokkurra mánaða frostakafla í kjölfar hins misheppnaða fundar þeirra Kims í Hanoi í febrúar.

Fundar Trumps með Xi Kínaforseta í Osaka er beðið með nokkurri eftirvæntingu, enda viðskiptadeila stórveldanna í hörðum hnút og Trump nýbúinn að hóta Kínverjum enn frekari refsitollum. Fundur þeirra hefst klukkan hálf þrjú í nótt að íslenskum tíma.