Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Trump vill frjáls viðskipti milli G7-ríkjanna

09.06.2018 - 18:47
Efnahagsmál · Erlent · G7
A handout photo made available by the German Government (Bundesregierung) on 09 June 2018 shows French President Emmanuel Macron (3-L, partially hidden), German Chancellor Angela Merkel (C-L) and Japan's Prime Minister Shinzo Abe (C-R) speaking to US
 Mynd: EPA-EFE - BUNDESREGIERUNG
Ekki náðist samkomulag milli Donald Trump Bandaríkjaforseta og leiðtoga annarra ríkja í G7-hópnum um tollamál. Forsetinn lagði til að felldir yrðu niður allir tollar og aðrar viðskiptahindranir milli ríkja G7 sem ekki hlaut hljómgrunn meðal kollega hans.

Trump kom til fundarins í Quebéc í Kanada með það að markmiði að bæta stöðu Bandaríkjanna í alþjóðaviðskiptum og samningum sem þeim að þeim lúta.

Að hans mati standa Bandaríkin höllum fæti gagnvart hinum meðlimum G7 og viðskiptasamningarnir séu efnahag landsins óhagstæðir. Hann lýsti Bandaríkjunum sem „sparibauk sem sífellt væri verið að ræna“ en ekki væri við leiðtoga hinna G7-ríkjanna að sakast vegna þess ástands, mun fremur forvera sína í embætti forseta.

Að sögn Trump tókst honum að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og koma öðrum leiðtogum í G7 í skilning um að leiðrétta þyrfti þennan meinta halla, annars væru viðskipti ríkja þeirra við Bandaríkin í hættu.

Ekki er langt síðan að Trump tók þá ákvörðun að leggja tolla á innflutning stáls og áls til Bandaríkjanna, sem aðrir leiðtoga G7 voru afar ósáttir með. Margir þeirra eru sagðir íhuga að svara í sömu mynt. Trump sagði að slík yrði „mistök“ og að Bandaríkin myndu sigra viðskiptastríð „í þúsund skiptum af þúsund“.

Að sögn evrópskra embættismanna sem sátu fundinn var Trump mótfallinn því að uppkast að texta sameiginlegrar yfirlýsingar leiðtoga G7-ríkjanna fjallaði um nauðsyn þess að styrkja Alþjóðaviðskiptamálastofnunina og tryggja sameiginlegt eftirlit með viðskiptum milli ríkjanna.

„Hvað okkur varðar var mikilvægt að samstaða sé um regluverk viðskipta,“ sagði kanslari Þýskalands Angela Merkel.

Donald Trump fór mikinn á fundinum og stakk meðal annars upp á því að öll viðskipti milli G7 ríkjanna verði gefin algjörlega frjáls.

„Engir verndartollar, engar hindranir. Þannig ætti þetta að vera. Engar niðurgreiðslur. Ég sagði meira að segja ‚enga verndartolla!‘ Það væri markmiðið, hvort sem það virkar eða ekki, en ég stakk engu að síður upp á því.“

Þetta gátu leiðtogar Kanada, Ítalíu, Þýskalands, Frakklands, Japans og Bretlands ekki sætt sig við þessar róttæku tillögur Trump.

Forsetinn fór af fundinum áður en honum lauk formlega og hélt til Singapúr til sögulegs fundar við leiðtoga Norður-Kóreu, Kim Jong-un.

thorvardurp's picture
Þorvarður Pálsson
Fréttastofa RÚV