Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Trump um leiðtogafund: „Skrefi fjær hörmungum“

13.06.2018 - 02:47
epa06801558 US President Donald J. Trump (L) and North Korean leader Kim Jong-un (R) strolling together through the grounds of the Capella Hotel after their working lunch during the historic summit at the Capella Hotel on Sentosa Island, Singapore, 12
 Mynd: EPA-EFE - THE STRAITS TIMES / SPH
Donald Trump Bandaríkjaforseti er alsáttur með fund sinn við Kim Jong Un, leiðtoga Norður-Kóreu, að því er fram kemur á Twitter-síðu forsetans. Heimurinn er nú skrefi fjær hörmungum af völdum kjarnavopna, segir hann í tísti og þakkar Kim Jong Un fyrir sögulegan fund. Leiðtogarnir funduðu í Singapúr í gær, þriðjudag, og vakti fundurinn heimsathygli.

Kim bauð Trump heim

Kim Jong Un bauð Bandaríkjaforseta heim til Pyongyang, höfuðborgar Norður-Kóreu, eftir fundinn og sagðist jafnframt vera tilbúinn til þess að heimsækja Donald Trump til Bandaríkjanna. Þetta hefur fréttastofa AFP eftir norður-kóreskum ríkismiðlum. Leiðtogarnir hafi fúslega þegið boðið hvor frá öðrum, enda séu þeir sannfærðir um að það sé mikilvægt til að bæta frekar samband ríkjanna tveggja.

Kim Jong Un tiltók ekki tíma en sagði að Donald Trump gæti komið í heimsókn þegar honum hentaði. Leiðtogafundurinn markaði algjöran viðsnúning í erfiðum og fjandsamlegum samskiptum ríkjanna tveggja, er líka haft eftir norður-kóreskum ríkismiðlum.

epa06801603 US President Donald J. Trump (R) and North Korean Chairmain Kim Jong-un (L) depart after a signing ceremony during their historic DPRK-US summit, at the Capella Hotel on Sentosa Island, Singapore, 12 June 2018. The summit marks the first
 Mynd: EPA-EFE - THE STRAITS TIMES / SPH
Leiðtogarnir ætla að heimsækja hvorn annan, segir í norður-kóreskum ríkismiðlum.

Fullvissa bandamenn um óhagganlega öryggisstefnu

Trump sagði á blaðamannafundi skömmu eftir fund sinn við Kim Jong Un að Bandaríkin ætluðu að hætta sameiginlegum heræfingum með bandamönnum sínum á Kóreuskaga. Skömmu eftir blaðamannafundinn sendi varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna frá sér yfirlýsingu, þar sem reynt var að fullvissa bandamenn Bandaríkjanna um óhagganlega öryggisstefnu landsins, eins og komist var að orði.

Með því að taka ekki þátt í hernaðaræfingum á Kóreuskaga er talið að Trump gefi að miklu leyti eftir í viðræðum sínum við Norður-Kóreu, eins og segir í frétt breska ríkisútvarpsins, BBC. Þá hafi sú ákvörðun að hætta sameiginlegum heræfingum komið bandamönnum Bandaríkjanna allnokkuð á óvart.

Matthías Tryggvi Haraldsson
Fréttastofa RÚV