Trump skýtur föstum skotum að Íran

13.05.2019 - 20:30
epa07568122 US President Donald J. Trump (L) and Hungarian Prime Minister Viktor Orban exchange some words in the Roosevelt Hall of the White House in Washington, DC, USA, 13 May 2019.  EPA-EFE/Szilard Koszticsak HUNGARY OUT
 Mynd: EPA-EFE - MTI
Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði Írani „þjást mikið“ ef yfirvöld þar „gerðu nokkuð“ af sér en samkvæmt leyniþjónustu Bandaríkjanna bendir ýmislegt til að Íranir hafi í hyggju að ráðast gegn bandarískum hagsmunum í Miðausturlöndum.

Þetta sagði forsetinn á blaðamannafundi með Viktor Orban forsætisráðherra Ungverjalands en forsætisráðherrann staddur í opinberri heimsókn. Forveri Trump, Barack Obama, hunsaði að mestu stjórnvöld í Ungverjalandi vegna meintrar ólýðræðislegrar hegðunar þeirra. Trump sagði á blaðamannafundinum að þeir Orban ættu það sameiginlegt að vera eilítið umdeildir.

Trump lét við þetta tækifæri harðorð ummæli falla um yfirvöld í Íran. Hann hefði af sögn heyrt sögur um meintar aðgerðir Írana í Miðausturlöndum og ef yfirvöld í Tehren gripu til einhverra hernaðaraðgerða væru það slæm mistök af þeirra hálfu. Miklar þjáningar væru í vændum fyrir Írani ef þeir létu til skarar skríða.

Stjórnvöld í Washington hafa undanfarin misseri aukið þrýsting á Írani, tilkynnt um nýjar refsiaðgerðir, fjölgað hermönnum við Persaflóann og sakaði þá um að skipuleggja árásir á svæðinu.

Yfirvöld í Tehran greindu frá því fyrir viku að þau ætluðu að hætta að uppfylla ákveðin skilyrði kjarnorkusamningins sem þau undirrituðu við Bandaríkin, Bretland, Frakkland, Kína, Rússland og Þýskaland árið 2015. Meðal annars ætla þau að hefja á ný auðgun úrans sem nýta má til að smíða kjarnavopn. Trump tilkynnti í fyrra að Bandaríkin hefðu dregið sig út úr samkomulaginu.

Í síðustu viku greindi Trump frá því að hann væri reiðubúinn til samningaviðræðna við Írani.

thorvardurp's picture
Þorvarður Pálsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi