Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Trump skrifar undir tilskipun um Mexíkóvegginn

Mynd með færslu
Við undirritunina í Hvíta húsinu í Washington í dag. Mynd: EPA - Consolidated News Photos POOL
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, skrifaði í kvöld undir tilskipun um að reisa skyldi 3.200 kílómetra langan vegg á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó. Hann sagði að mexíkóska þjóðin myndi endurgreiða kostnaðinnn við vegginn. Þá skrifaði Trump undir tilskipun þess efnis að draga skyldi úr styrkjum til borga sem aðhafast ekkert vegna ólöglegra innflytjenda.

Veggurinn var eitt helsta kosningamál Trumps í kosningabaráttunni og forsetinn sagði í viðtali í kvöld við bandaríska sjónvarpsstöð að Mexíkó yrði látið borga fyrir vegginn. „Við höfum talað um þetta frá upphafi,“ sagði Trump.

Forsetinn sagði í samtali við ABC News að viðræður við Mexíkó myndu hefjast fljótlega en áætlaður kostnaður við mannvirkið er talinn nema 8 milljörðum bandaríkjadala. „Þetta verður líka gott fyrir Mexíkó.“

Trump hefur verið önnum kafinn eftir að hann sór embættiseið í síðustu viku.  Fram kemur á vef BBC að búist sé við því að forsetinn grípi til fleiri ráðstafana gegn innflytjendum. Meðal annars að fólki frá sjö ríkjum í Afríku og MIð-Austurlöndum verði bannað að koma til landsins - Jemen, Sýrland og Írak eru í þeim hópi. 

Þá ætlar Trump að fyrirskipa rannsókn á hugsanlegu kosningasvindli.  Hann hefur haldið því fram að metfjöldi hafi kosið ólöglega og það skýri af hverju Hillary Clinton, mótframbjóðandi hans, fékk fleiri atkvæði.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV