Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Trump segir tunglið tilheyra Mars

07.06.2019 - 20:04
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Donald Trump Bandaríkjaforseti er ekki par hrifinn af áætlunum bandarísku geimferðarstofnunarinnar NASA um að snúa aftur til tunglsins. Hann tísti um málið í dag og hefur það vakið athygli að á Twitter segir hann tunglið tilheyra Mars.

Að mati forsetans er það ekki nógu háleitt markmið að stefna aftur til tunglsins, 50 árum eftir að Neil Armstrong steig þar niður fæti fyrstur manna. Stefnan ætti frekar að vera tekin á reikistjörnuna Mars eða að störfum í þágu varnarmála og vísinda.

Verður þó að teljast líklegt að forsetinn hafi frekar átt við að ferð til tunglsins sé hluti af áætlunum NASA um leiðangur til rauðu plánetunnar en Mars hefur tvö tungl, Fóbos og Deimos.

Trump segir stjórn sína vinna að því að endurreisa NASA, til að mynda með fjárframlögum upp á 1,6 milljarð dollara sem hann greindi frá í maí. Vill hann að Bandaríkin haldi aftur út í geim með hvelli.

thorvardurp's picture
Þorvarður Pálsson
Fréttastofa RÚV