Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Trump segir fjölmiðla óvini þjóðarinnar

18.02.2017 - 00:31
epa05798035 US President Donald J. Trump participates in a press conference in the East Room in of the White House in Washington, DC, USA, 16  February 2017. President Trump announced that Alexander Acosta, a former US attorney, is his new nominee for
 Mynd: EPA
Bandaríkjaforseti réðist enn eina ferðina á fjölmiðla í gegnum samfélagsmiðilinn Twitter í kvöld. Hann nafngreindi fimm fjölmiðla og sagði þá flytja falskar fréttir. Þeir væru ekki óvinir hans, heldur óvinir bandarísku þjóðarinnar.

Donald Trump beindi árás sinni gegn CNN, New York Times, NBC, ABC og CBS. Hann hafði áður skrifað aðra færslu á Twitter þar sem fyrstu þrír fjölmiðlarnir voru aðeins nafngreindir, orðaði færsluna eins en bætti því við að honum þættu þeir ógeðfelldir. Þeirri færslu eyddi hann út skömmu síðar og bætti ABC og CBS fréttastofunum við og sleppti því að segja hversu ógeðfelldir honum þykir fjölmiðlarnir.

Síðar í kvöld bætti hann við færslu á Twitter þar sem hann sagði umfjöllun falskra fjölmiðla um blaðamannafund sinn óheiðarlega. Hann hefur eftir fjölmiðlamanninum Rush Limbaugh að þetta hafi verið einn áhrifaríkasti blaðamannafundur sem hann hafi séð, og margir séu honum sammála.

Forsetar hafa áður gagnrýnt fjölmiðla, en orðalag Trumps er allt öðruvísi en forvera hans. AFP fréttastofan segir það minna á gagnrýni harðstjóra gagnvart fjölmiðlum víða um heim.

Stór hluti kosningabaráttu Trumps fór í að gagnrýna fjölmiðla sem voru honum ekki hliðhollir. Hann hélt þeirri gagnrýni áfram á blaðamannafundi í gær þar sem hann sagði vinsælustu fjölmiðla landsins óheiðarlega gagnvart sér, nema Fox fréttastöðina.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV