Trump segir Bandaríkin reiðubúin fyrir COVID-19

27.02.2020 - 01:19
epa08251036 US President Donald J. Trump (C), US Vice president Mike Pence (3L) and Secretary of Health and Human Services Alex Azar (2L) as President Trump speaks to the media in the James S. Brady Briefing room with members of the Coronavirus Task Force at the White House in Washington, DC, USA, 26 February 2020.  EPA-EFE/ERIK S. LESSER
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, segir hættuna af kórónaveirunni sem veldur COVID-19 litla í Bandaríkjunum. Allt sé þó til reiðu ef allt fer á versta veg. Trump tilkynnti á blaðamannafundi í kvöld að varaforsetinn Mike Pence leiði viðbragðsteymi Bandaríkjanna vegna veirunnar. Hann verður í nánu samstarfi við sérfræðinga og lækna.

Trump sagðist reiðubúinn að leggja það fjármagn sem til þarf til þess að bregðast við kórónaveirunni. Bandaríkin væru tilbúin til þess að auka viðbúnað sinn gegn veirunni verulega ef á þarf að halda. Sjúkrahús séu með nægt rými til þess að taka á móti þeim sem veikjast og verið sé að undirbúa húsnæði fyrir sóttkví. 

Frekari ferðatakmarkanir ótímabærar

Aðspurður svaraði Trump að Bandaríkin gætu hugsanlega takmarkað ferðalög til og frá Ítalíu, Suður-Kóreu og fleiri ríkjum sem veiran hefur náð að dreifa sér. Hann sagði það þó ekki tímabært á þessari stundu. Sameiginlegum heræfingum Bandaríkjanna og Suður-Kóreu hefur þó verið frestað um ótilgerindan tíma. Nærri 1.600 tilfelli eru nú staðfest í Suður-Kóreu og meira en 450 á Ítalíu. 12 hafa látið lífið af völdum veirunnar í hvoru landi. Langflest tilfellin eru í Kína þar sem yfir 78 þúsund hafa greinst með veiruna og meira en 2.700 eru látnir. Trump segir ástandið þar augljóst, en nýsmit virðist í rénun sem eru góðar fréttir að hans sögn.

Einangrað tilfelli í Kaliforníu

Á meðan blaðamannfundinum stóð greindi Washington Post frá því að nýtt tilfelli veirunnar hafi greinst í norðanverðri Kaliforníu. Það sem gerir tilfellið sérstakt er að einstaklingurinn sem reyndist smitaður var ekki að koma heim úr utanlandsferð og hafði ekki verið nærri neinum með staðfest smit, samkvæmt heimildum Post. Yfirvöld rekja nú ferðir einstaklingsins til þess að komast að því hvernig hann smitaðist.