
Þeir White og Howard X hafa af því atvinnu að líkjast og líkja eftir tveimur áhrifamönnum heimsins um þessar mundir, nefnilega Donald Trump og Kim Jong-un, og þeir voru í vinnunni þegar lögreglan truflaði þá við störf sín.
Þau störf vekja yfirleitt kátínu fremur en nokkuð annað, eins og til er stofnað, en víetnömsku lögreglumönnunum var ekki hlátur í huga. Sögðu þeir tvíeykinu að hætta að koma fram í fjölmiðlum að viðlagri brottvísun. „Þeir sögðu okkur í raun að við ættu að hætta öllum eftirhermum, annars myndu þeir sparka okkur úr landi,“ sagði Howard X við fréttamenn, þegar hann var laus úr yfirheyrslunum og kominn heim á hótel. Taldi hann fullvíst að á meðal annarra gesta þar á bæ væru óeinkennisklæddir lögreglumenn að fylgjast með honum.
Howard X segist ekki ætla að fara úr landi ótilneyddur, enda hafi hann aflað sér allra tilskilinna heimilda og pappíra og því löglegur í landinu. Fyrr um daginn höfðu þeir Russell komið fram í nokkrum fjölmiðlum og á nokkrum stöðum í borginni við góðar undirtektir. Vilji víetnömsk yfirvöld losna við hann úr landi verði þau að flytja hann þaðan nauðugan. Þjóðarleiðtogarnir tveir, fyrirmyndir eftirhermanna, hittast á sínum öðrum fundi í næstu viku.