Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Trump heggur í sama knérunn á Twitter

11.06.2018 - 04:21
Erlent · Donald Trump · G7
Mynd með færslu
 Mynd: EPA - Samsett
Bandaríkjaforseti hélt árásum sínum á forsætisráðherra Kanada áfram á Twitter í nótt. Hann segir Kanada mokgræða á viðskiptum sínum við Bandaríkin, á meðan Bandaríkin fái lítið til baka.

Donald Trump hóf daginn snemma á Twitter í Singapúr. Áður en hann hélt til fundar við forsætisráðherra gestgjafa sinna, notaði hann tímann til þess að fara yfir það hversu illa honum þykir farið með Bandaríkin á alþjóðavettvangi.

Fyrst beindi hann sjónum sínum að Kanada og forsætisráðherranum Justin Trudeau. Hann sagði að sanngjörn viðskipti, eða Fair Trade, yrðu kölluð viðskipti við vitleysinga, eða Fool Trade, ef þau væru ekki endurgoldin. Að hans sögn er viðskiptahagnaður Kanada gagnvart Bandaríkjunum um hundrað milljarðar bandaríkjadala. Þá kvartaði hann, líkt og í gær, undan 270 prósenta verndartollum Kanada á innfluttar mjólkurvörur. Svo sagði hann Justin Trudeau þykjast vera sáran þegar komið væri upp um hann.

Hann hélt áfram og spurði af hverju hann sem forseti ætti að leyfa öðrum ríkjum að skila gríðarlegum viðskiptahagnaði gagnvart Bandaríkjunum á meðan bandarískir bændur, verkamenn og skattgreiðendur þurfi að gjalda það dýru verði. Hann segir að 800 milljarða dala viðskiptahalli sé ósanngjarn gagnvart bandarísku þjóðinni.

Þá vatt Trump sér að kostnaði Bandaríkjanna við Atlantshafsbandalagið, NATO. Hann segir Bandaríkin borga nánast allan kostnað við varnir ríkjanna sem fari illa með ríkið í viðskiptum. Þjóðverjar borgi eitt prósent af landsframleiðslu til NATO á meðan Bandaríkin borgi fjögur prósent af sinni landsframleiðslu, sem sé mun meiri. Hann segir það þó gott að Bandaríkin aðstoði við vernd Evrópu, en kostnaður af því sé verulegur fyrir Bandaríkin. Breyting á því er væntanleg að sögn Trumps.

Tveimur mínútum eftir skrifin um kostnaðinn við öryggisgæslu í Evrópu hrósaði hann happi yfir því að vera kominn til Singapúr, og sagði mikla spennu vera í loftinu. Þangað er Trump kominn til fundar við leiðtoga Norður-Kóreu, Kim Jong-un, þar sem þeir ætla að ræða friðarumleitanir og afkjarnorkuvæðingu á Kóreuskaga. Norður-kóreska ríkisfréttastofan KCNA greindi frá því að þetta verði aðalumræðuefni leiðtoganna, auk annarra málefna sem varða bæði ríkin. Engar upplýsingar hafa borist úr Hvíta húsinu um hvað leiðtogarnir ætla að ræða, eða hvort Trump ætli að ræða við Kim um ástand almennra borgara í Norður-Kóreu.