Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Trump beitti neitunarvaldi

25.07.2019 - 11:52
epa07738513 US President Donald J. Trump takes questions from members of the news media before departing the South Lawn of the White House by Marine One, in Washington, DC, USA, 24 July 2019. Before leaving for a fundraising event in West Virginia, Trump spoke on the testimony of Robert Mueller before back-to-back Congressional hearings on Russian interference into the 2016 election, and possible efforts by President Trump to obstruct Mueller's investigation.  EPA-EFE/MICHAEL REYNOLDS
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. Mynd: EPA-EFE - EPA
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, beitti í gærkvöld neitunarvaldi til að ógilda samþykkt fulltrúadeildar Bandaríkjaþings fyrir viku sem komið hefði í veg fyrir umfangsmikla sölu á vopnum til Sádi-Arabíu. Forystumenn Demókrataflokksins fordæma ákvörðun forsetans.

Ráðamenn í Washington greindu frá því fyrr í sumar að þeir ætluðu að selja Sádi-Aröbum vopn fyrir jafnvirði næstum 1.000 milljarða króna og báru við þeirri ógn sem stafaði af Íran.

Meirihluti fulltrúadeildarinnar lýsti sig andvígan sölunni, þó ekki með nægum meirihluta til að hindra að forsetinn gæti beitt neitunarvaldi.

Sala á vopnum til Sádi-Arabíu er viðkvæmt mál vestanhafs um þessar mundir eða síðan ljóst var að dauðasveit frá Ríad hefði myrt sádiarabíska blaðamanninn Jamal Khashoggi í Istanbúl í fyrra. Þá hafa margir lýst yfir áhyggjum af dauða almennra borgara í árásum Sádi-Araba og samstarfsríkja á Jemen.

Trump sagði í bréfi í gærkvöld að án nákvæmra vopna myndu fleiri almennir borgarar falla í árásum í Jemen. Sádi-Arabía og Sameinuðu arabísku furstadæmin væru auk þess helsta vörnin gegn Írönum og bandamönnum þeirra í Austurlöndum nær.

Demókratinn Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, segir ákvörðun Trumps skammarlega, en til að hnekkja neitunarvaldi forsetans þurfa báðar deildir þings að samþykkja það með tveimur þriðju meirihluta.

Kristján Róbert Kristjánsson
Fréttastofa RÚV