Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Trump ætlar fyrr heim af G7 fundi

08.06.2018 - 04:49
Erlent · Bandaríkin · G7
President Donald Trump, accompanied by House Majority Leader Kevin McCarthy of Calif., speaks to members of the media as they arrive for a dinner at Trump International Golf Club in in West Palm Beach, Fla., Sunday, Jan. 14, 2018. (AP Photo/Andrew Harnik)
Donald Trump mótmælir því einarðlega að hann sé haldinn kynþáttafordómum. Mynd: AP
Bandaríkjaforseti hyggst yfirgefa leiðtogafund G7 ríkjanna snemma á laugardag, nokkrum klukkustundum áður en fundinum lýkur. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Hvíta húsinu að sögn CNN. Forsetinn lætur ráðgjöfum sínum eftir að sitja síðustu fundina. 

Búist er við talsverðum hitafundi í Kanada um helgina þar sem leiðtogar sjö stærstu efnahagsvelda heimsins koma saman. Gera má ráð fyrir að leiðtogarnir eigi flestir eftir að beina spjótum sínum að Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, vegna innflutningstolla sem hann hefur lagt á stál og ál frá ríkjunum. Skrif Emmanuels Macrons Frakklandsforseta á Twitter í gær þykja benda til þess að öll sex ríkin utan Bandaríkjanna eigi eftir að boða sameinaða andstöðu gegn Bandaríkjunum. Trump svaraði fyrir sig með því að segja viðskiptahalla Bandaríkjanna í garð bæði Evrópusambandsríkja og Kanada of háan til að ekkert verði að gert.

CNN kveðst hafa heimildir fyrir því að Trump hafi íhugað að láta það alveg vera að mæta á fundinn í Quebec. Hann hafi ekki séð tilgang í að mæta leiðtogum ríkja sem hann vissi að væru ósammála honum í flestum málefnum fundarins. Honum var svo bent á það, að sögn CNN, að ef hann léti ekki sjá sig gæti verið litið á það sem uppgjöf af hans hálfu.

Trump hefur þó ákveðið að að yfirgefa fundinn snemma á laugardag, áður en viðræður um loftslagsbreytingar og umhverfismál hefjast. Ráðgjafi hans situr fundinn í hans stað.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV