Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Trukkað út tíunda áratuginn

Mynd með færslu
 Mynd:

Trukkað út tíunda áratuginn

15.03.2019 - 13:30

Höfundar

Frumburður Ensími, hin goðsagnakennda Kafbátamúsík, var endurútgefin fyrir stuttu á vínylplötu. Arnar Eggert Thoroddsen rýnir í verkið sem er plata vikunnar á Rás 2.

Nú hafa Kolrössur, Maus og Botnleðja endurútgefið höfuðverk sín frá tíunda áratugnum og maður var ósjálfrátt farinn að hugsa til þessarar plötu hér. Þessar fjórar sveitir báru ægishjálm yfir aðrar gítarindírokksveitir á þessum áratug, þó að óhætt sé að henda 200.000 naglbítum í hræruna líka. Naglbítarnir og Ensími komu svona undir restina á áratugnum, öndvegissveitir báðar tvær, og sú sem hér er til umfjöllunar gaf út Kafbátamúsík árið 1998 og svo BMX strax árið eftir.

Næntís

Á þessum tveimur plötum er Ensími eins mikil næntíssveit og hægt er að vera. Hvort heldur í tilfelli klæðaburðar, umslagshönnunar nú eða sjálfrar tónlistarinnar. Ólíkt hinum sveitunum var Ensími mestanpart skipuð mönnum sem áttu rætur í þungarokki. Hrafn Thoroddsen söngvari og gítarleikari og Jón Örn Arnarson trymbill höfðu verið saman í Jet Black Joe; Franz Gunnarsson gítarleikari hafði leikið í dauða/þrass-sveitinni In Memoriam og Kjartan Róbertsson, bassaleikari, var/er í dauðarokkssveitinni Strigaskór nr. 42. Á seinni stigum gekk Oddný Sturludóttir í hópinn, og lék á hljómborð. Sem sagt, þungarokkarar sem létu faxið fjúka og skiptu út hermannaklossum fyrir strigaskó.

Upptökuferli plötunnar er hádramatískur kapítuli út af fyrir sig, en það átti eftir að reynast mikið ævintýri og á tíma leit út fyrir að ekkert yrði af plötugerðinni. Fyrir það fyrsta var brotist inn í æfingahúsnæði sveitarinnar og öllum hljóðfærum stolið. Þau voru svo endurheimt daginn eftir, með klækjabrögðum. Svo þegar búið var að hljóðrita um helming plötunnar í Stúdíó Sýrlandi hrundi Pro tools forritið. Efnið hafði ekki verið vistað annars staðar til öryggis og því þurfti að byrja upp á nýtt. Addi 800, upptökumaðurinn snjalli, á mikinn þátt í plötunni og tók hann sveitina, og plötuna, upp á arma sína og stappaði stáli í menn. Þegar platan kom svo út um haustið sló hún í gegn og seldist von úr viti, meira en menn höfðu átt von á. Lagið „Atari“ varð mjög vinsælt, var mikið leikið í útvarpi, og lagið var valið besta lagið á íslensku tónlistarverðlaunahátíðinni og sveitin bjartasta vonin.

Ferskt

Ensími nær einmitt að slá ferskan tón á plötunni, sveitin tappar glæsilega inn í þetta melódíska gítarrokk sem var móðins á þessum áratug, en lögin eru síðan haganlega skreytt rafhljóðum, sem negldi plötuna enn betur inn í samtímann. Ensími var enn fremur mjög svöl sveit. Hrafn hafði (og hefur enn) yfir sér fjarræna, dulræna áru sem er hreint út sagt ómótstæðileg. Aðrir meðlimir fylgdu honum að málum, pössuðu sig að brosa ekki of mikið, og svo var Oddný punkturinn yfir i-ið. Þegar hlustað er aftur á plötuna heyrir maður að gæðum er dálítið misskipt á milli laga. „Flotkví“, „Arpeggiator, gulur“ og „Atari“ eru sígild lög og ekkert hefur fallið á þau í öll þessi ár. Inn á milli koma svo lög sem maður var hálfpartinn búinn að gleyma, frekar partur af alhliða stemningu en að þau standi reffileg sem glæstar lagasmíðar. En þessi alhliða stemning var svo pottþétt eitthvað á þessum tíma, og ég er ekkert hissa á þessum miklu og skjótu farsældum sem sveitin tók inn. Ég vil líka nefna, að ég held sömuleiðis mikið upp á BMX, finnst það firnagóð skífa og hún stendur lítt að baki þessu verki hér.

Ensími í kvikmyndinni Popp í Reykjavík frá 1998.

Sumarið 2009 stóðu tímaritið Reykjavík Grapevine og sjónritið Rafskinna fyrir fyrstu tónleikunum í röðinni Manstu ekki eftir mér, þar sem þekktar rokksveitir og listamenn fluttu klassísk verk í heild sinni. Var það Ensími sem reið á vaðið og lék hún Kafbátamúsík á Nasa við Austurvöll þann 11. júní. Komust færri að en vildu, og var Nasa ekki með minnstu stöðum. Sönnun þess að klassísk verk eins og Kafbátamúsík missa í engu aðdráttaraflið þó að mistur tímans leggist yfir.

Tengdar fréttir

Popptónlist

Dansað inn í ljósið

Popptónlist

Mjúka rappið

Popptónlist

Fallegt og knýjandi verk

Popptónlist

Svellkaldar sálarstemmur