Nú hafa Kolrössur, Maus og Botnleðja endurútgefið höfuðverk sín frá tíunda áratugnum og maður var ósjálfrátt farinn að hugsa til þessarar plötu hér. Þessar fjórar sveitir báru ægishjálm yfir aðrar gítarindírokksveitir á þessum áratug, þó að óhætt sé að henda 200.000 naglbítum í hræruna líka. Naglbítarnir og Ensími komu svona undir restina á áratugnum, öndvegissveitir báðar tvær, og sú sem hér er til umfjöllunar gaf út Kafbátamúsík árið 1998 og svo BMX strax árið eftir.
Næntís
Á þessum tveimur plötum er Ensími eins mikil næntíssveit og hægt er að vera. Hvort heldur í tilfelli klæðaburðar, umslagshönnunar nú eða sjálfrar tónlistarinnar. Ólíkt hinum sveitunum var Ensími mestanpart skipuð mönnum sem áttu rætur í þungarokki. Hrafn Thoroddsen söngvari og gítarleikari og Jón Örn Arnarson trymbill höfðu verið saman í Jet Black Joe; Franz Gunnarsson gítarleikari hafði leikið í dauða/þrass-sveitinni In Memoriam og Kjartan Róbertsson, bassaleikari, var/er í dauðarokkssveitinni Strigaskór nr. 42. Á seinni stigum gekk Oddný Sturludóttir í hópinn, og lék á hljómborð. Sem sagt, þungarokkarar sem létu faxið fjúka og skiptu út hermannaklossum fyrir strigaskó.