Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Truenorth vísar gagnrýni vegna Fast 8 á bug

Mynd með færslu
 Mynd: Finnur Andrésson

Truenorth vísar gagnrýni vegna Fast 8 á bug

03.05.2016 - 14:10

Höfundar

Íslenska framleiðslufyrirtækið Truenorth, sem kom að tökum Fast 8 við Mývatn og á Akranesi, hefur sent atvinnuveganefnd Alþingis bréf þar sem gerðar eru athugasemdir við umsögn Félags kvikmyndagerðarmanna, FK. Fyrirtækið telur óhjákvæmilegt að gera athugasemdir við og leiðrétta rangfærslur sem birtust í umsögninni.

Fréttastofa greindi frá umsögninni í gær en hún var gerð við frumvarp iðnaðarráðherra þar sem til stendur að hækka endurgreiðslu úr 20 prósentum í 25 af framleiðslukostnaði hér á landi.  

Uppfært: FK hefur beðist afsökunar á því að hafa sent ranga umsögn til atvinnuveganefndar. Rétt umsögn hefur því verið send inn. Hægt er að nálgast hana hér.

Félagið gagnrýndi þar meðal annars tökur Fast 8 á Mývatni og sagði meðal annars: „Nú nýlega var viðkvæmu vistkerfi Mývatns og Langavatns raskað með sprengingum og bílaumferð út á ís sem endaði með ósköpum, m.a með tveimur gröfum sem sukku í vatnið með tilheyrandi mengun og raski.“

Truenorth segir í umsögn sinni að við undirbúning á tökum á Fast 8 hafi mikið verið lagt í forvinnu í nánu samstarfi við fagaðila og reynslu heimamanna varðandi öryggi íssins. Í þeim tilvikum sem ís hafi brotnað undan vinnuvélum hafi strax farið í gang viðbragðsáætlun sem kom í veg fyrir mengun. Það hafi síðar verið staðfest með rannsókn Umhverfisstofnunar.

Truenorth segir að umhverfismálin hafi verið leyfisskyld og undir eftirliti fjölmargra eftirlitsaðila. „Jafnframt voru unnar viðbragðsáætlanir til að tökuliðið væri viðbúið hverskyns óhöppum og voru þær samþykktar af Umhverfisstofnun.“ Truenorth bendir jafnframt á að engar tökur hafi farið fram á Langavatni eins og til stóð og haldið hafi verið fram í umsögn FK.

Truenorth upplýsir jafnframt að strangar reglur hafi verið í gildi fyrir þá sem unnu úti á vatninu. „Þegar komið var fram í apríl og lofthiti jókst var hert enn frekar á þeim reglum í samstarfi við Umhverfisstofnun til að gæta enn betur að öryggi allra.“ Þá hafi sérstakt öryggisteymi metið og haldið utan um öryggi allra á tökustað.

Í umsögn FK var talið brýnt að lágmarksfjöldi íslenskra eða evrópskra faglærðra kvikmyndagerðarmanna starfi við þau verkefni sem gjaldgeng væru til endurgreiðslu. Truenorth segir í umsögn sinni að þegar sé í gildi ákvæði sem kveði á um að 51 prósent tökuliðs séu ríkisborgarar EES-ríkja. Þá er því vísað á bug að starfsfólk sé látið skrifa undir samninga sem innihalda ákvæði um vinnutíma.  

 

 

Tengdar fréttir

Stjórnmál

Gagnrýna tökur Fast 8 við Mývatn

Norðurland

Tökum á Fast 8 á Mývatni lokið

Akraneskaupstaður

Fast 8 fær leyfi fyrir lágflugi á Akranesi

Menningarefni

Leikari í Fast 8: „Sendur einn til Íslands“