Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Trúðu varla að stelpa gæti trommað

19.06.2015 - 11:18
Fyrir 33 árum fannst fólki ótrúlegt að stelpa gæti spilað á trommur, hvað þá að stelpnahljómsveit gæti spilað kraftmikið rokk. Síðan þá hefur margt breyst eins og sést í nýrri heimildamynd um Dúkkulísurnar sem sýnd verður á RÚV í kvöld.

Dúkkulísurnar eru á meðal hljómsveita sem koma fram á tónleikunum Höfundur óþekktur í Hörpu í kvöld. Tónleikarnir eru haldnir í tilefni þess að 100 ár eru liðin frá því að konur fengu kosningarétt.

Dúkkulísurnar vöktu athygli og undrun sem beindist ekki síst að trommuleikaranum, Guðbjörgu Pálsdóttur. „Það hefur nú mörgum þótt það skrítið í gegnum tíðina og sérstaklega á þeim tíma þegar við vorum að byrja; að við gætum spilað og að ég gæti trommað; að það væri kvenkyns trommuleikari þarna. Maður þarf að hafa svolitla krafta í kögglum,“ segir Guðbjörg og bætir við að trommuleikur sé ekki kvenlegasta starfið í hljómsveitinni. „Maður er til dæmis ekki oft í pilsi við settið. Það þvælist bara fyrir.“

Grýlurnar voru fyrirmyndin og hvöttu þær áfram en Dúkkulísurnar voru mjög ungar þegar þær byrjuðu. Hildur Ásta Viggósdóttir hljómborðsleikari segir að þó að fleiri kvennahljómsveitir hafi komið fram reki fólk enn í rogastans á böllum þegar þær taki við af öðrum hljómsveitum og spili rokk „Fólk er bara að dansa og svo komum við á sviðið og þá hætta allir að dansa horfa. Við lítum hver á aðra. Ætli þetta sé svona leiðinlegt?“ segir Hildur Ásta en bætir við að fólk hætti fljótt að glápa og fari að dansa. Hún telur margt hafa breyst síðan þær byrjuðu fyrir rúmum 30 árum. „Sem betur fer þá er mikil breyting og möguleikar fyrir stelpur í dag eru alveg eins og fyrir stráka.“

RÚV verður með beina útsendingu úr Hörpu í kvöld en áður verður heimildamyndin höfundur Óþekktur sýnd. Horfa má á þáttinn hér á vefnum. 

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV