Trudeau og Zelensky krefjast réttlætis

11.01.2020 - 08:15
Erlent · Asía · Íran · Kanada · Úkraína · Evrópa · Norður Ameríka · Stjórnmál
epa08118403 (FILE) - The flowers are seen in front of the Iranian embassy in tribute of the airplane crash victims in Kiev, Ukraine, 08 January 2020 (reissued 11 January 2020). According to media reports on 11 January 2020, the Iranian military released a statement claiming that Ukraine International Airlines flight PS752 was shot down due to 'human error.'  EPA-EFE/SERGEY DOLZHENKO
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Úkraínuforseti og forsætisráðherra Kanada krefjast þess að atburðarásin sem leiddi til þess að úkraínsk farþegaþota var skotin niður í Íran í vikunni verði rannsökuð til hlítar og að sá eða þeir sem ábyrgðina bera verði látnir axla hana. 176 manns fórust með vélinni, þar af 63 kanadískir ríkisborgarar og ellefu úkraínskir.

Íransher viðurkenndi í nótt að hafa grandað vélinni og kennir mannlegum mistökum um. Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, segir nauðsynlegt að upplýsa málið að fullu til að sátt geti náðst um málalok. Einnig krafðist hann „gagnsæis og réttætis fyrir fjölskyldur og ástvini fórnarlambanna." Trudeau sagði slysið þjóðarharmleik og alla Kanadamenn sameinaða í sorginni.

Volodymyr Zelensky gengur enn lengra og krefst þess að þeim sem ábyrgðina bera verði refsað og að Íranar greiði skaðabætur. „Við ætlumst til þess að Íran dragi hina seku fyrir dóm," skrifar Zelensky á Facebook, og kallar eftir „greiðslu skaðabóta." 
 

Hassan Rouhani, Íransforseti, hefur beðist fyrirgefningar og lýst harmi sínum vegna atburðarins., Hann hét því í nótt að málið yrði rannsaka og þeir sóttir til saka „sem ábyrgð bera á þessum mikla harmleik og ófyrirgefanlegu mistökum."
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV