Trezeguet skaut Aston Villa í úrslit

epa08173807 Mahmoud Trezeguet (R) of Aston Villa celebrates with teammate Ahmed Elmohamady after scoring the second goal for his team during the Carabao Cup semi final second leg match between Aston Villa and Leicester City in Birmingham, Britain, 28 January 2020. Villa won 2-1.  EPA-EFE/PETER POWELL EDITORIAL USE ONLY. No use with unauthorized audio, video, data, fixture lists, club/league logos or 'live' services. Online in-match use limited to 120 images, no video emulation. No use in betting, games or single club/league/player publications
 Mynd: EPA-EFE - EPA

Trezeguet skaut Aston Villa í úrslit

28.01.2020 - 22:30
Aston Villa tryggði sér í kvöld sæti í úrslitum enska deildabikarsins í fótbolta. Egyptinn Trezeguet skoraði sigurmark liðsins gegn Leicester City í uppbótartíma eftir frábæra stoðsendingu landa síns Ahmed Elmohamady.

Liðin mættust í síðari undanúrslitaleiknum á Villa Park, heimavelli Aston Villa í kvöld, en þau höfðu gert 1-1 jafntefli í fyrri leiknum á King Power-vellinum. Vinstri bakvörðurinn Matthew Targett kom heimamönnum yfir eftir aðeins tólf mínútna leik í kvöld og 1-0 stóð allt fram á 72. mínútu. Þá jafnaði Nígeríubúinn Kelechi Iheanacho leikinn fyrir Leicester.

Þá var jafnt á öllum tölum og virtist stefna í vítaspyrnukeppni, sem tæki við að 90 mínútum loknum myndu liðin skilja jöfn. Bæði lið sóttu hart að sigurmarki í lokin og það kom á annarri mínútu uppbótartíma. Egyptarnir Ahmed Elmohamady og Trezeguet höfðu báðir komið inn á sem varamenn í leiknum en sá fyrrnefndi átti frábæra fyrirgjöf af miðjum vallarhelmingi Leicester sem fór yfir alla varnarmenn liðsins og fann þann síðarnefnda á fjærstönginni. Trezeguet tók boltann á lofti í fyrsta og skoraði laglegt sigurmark í blálokin.

Aston Villa vann einvígið því samanlagt 3-2 og er komið í úrslit deildabikarsins í fyrsta sinn frá árinu 2010 þegar liðið tapaði 2-1 fyrir Manchester United í úrslitum.

Manchester United gæti orðið andstæðingur Villa á ný en þá þarf liðið að taka á honum stóra sínum er það mætir grönnunum í Manchester City í undanúrslitum á Etihad-vellinum, heimavelli City, annað kvöld. City vann fyrri leikinn á Old Trafford 3-1 og hefur liðið raunar ekki tapað leik í keppninni síðan í október 2016 þegar United sló þá úr keppni. City hefur síðan unnið keppnina síðustu tvö tímabil án þess að tapa leik.