Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Traustar ofanflóðavarnir, fiskeldi og íbúðir á Flateyri

06.03.2020 - 18:15
Flateyri í Önundarfirði janúar 2020
 Mynd: Elsa María Guðlaugs Drífudót - RÚV
Uppbygging heilsugæslusels, nýtt íbúðarhúsnæði og fiskeldi í Önundarfirði er meðal þess sem hægt er að gera til þess að treysta atvinnulíf og búsetu á Flateyri við Önundarfjörð.

Fimmtán tillögur voru lagðar fram að lokinni vinnu starfshóps ríkisstjórnar sem skipaður var í kjölfar snjóflóðanna sem féllu í janúar. Tillögurnar voru kynntar á íbúafundi í gær.

Ívar Kristjánsson, varaformaður björgunarsveitarinnar Sæbjargar, segir að Flateyringar hafi tekið vel í tillögurnar.

„Ég hef alla vega ekki heyrt neinar neikvæðar raddir, svo er auðvitað alltaf það að þetta eru bara tillögur á blaði eins og er, eins og var sagt á fundinum, en svo á eftir að koma í ljós hvort tillögurnar ná fram að ganga,“ segir hann.

Styðja þarf fjölbreytt atvinnulíf

Efla á atvinnu- og byggðamál. Þar eru fiskeldi í Önundarfirði og þróunarverkefni í sjávarútvegi tiltekin ásamt vinnumarkaðsaðgerðum og fjölgun íbúða. Ívar segir þær tillögur góðar, en ítrekar að styðja þurfi fjölbreytt atvinnulíf í þorpinu fremur en einblína á sjávarútveg.

Fimm liðir fela í sér nýja skuldbindingar fyrir ríkissjóð. Þeirra á meðal eru uppbygging heilsugæslusels, trygg starfsemi lýðskólans á Flateyri og kaup á björgunarbát fyrir þorpið til að þjóna sem flóttaleið þegar Flateyrarvegur er lokaður. Þá eru fjórar tillögur taldar mikilvægar til þess að auka öryggi í þorpinu. Þær snúa að ofanflóðavörnum, endurskoðun skipulags og viðbragðs almannavarna og rafmagnsöryggi.

Öryggi grundvallarmál

Ívar segir tillögurnar allar af hinu góða, en fyrst og síðast þurfi að tryggja öryggi.

„Bara að fólk viti hvað það er gott að búa hérna og það sé mikils virði að tryggja öryggi okkar þannig að við getum haldið áfram að vera hér og fjölgað eins og við höfum verið að gera undanfarið. Tryggja skólann, bæði grunnskóla og lýðskólann. Þetta er allt upp á við og vonandi verður það bara áfram. Þess vegna þurfum við betra öryggi,“ segir hann.