Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Traust bankakerfi í lokuðu umhverfi

18.01.2016 - 13:57
Mynd: Óðinn Jónsson / Morgunvaktin
Minni vanskil eru í íslenska bankakerfinu en í mörgum nágrannalöndum. Núverandi bankakerfi er nokkuð traust eftir að búið er að hreinsa efnahagsreikning bankanna með afskriftum lána og skilja frá alþjóðlega áhættu. En til lengri tíma litið þarf þetta lokaða bankakerfi betri aðgang að erlendu lánsfé til að þjóna stærri viðskiptavinum með erlenda starfsemi.

Yngvi Örn Kristinsson, hagfræðingur Samtaka fjármálafyrirtækja, ræddi stöðu íslenska bankakerfisins á Morgunvaktinni á Rás 1.

Núverandi bankakerfi fæddist í neyðaraðgerðum eftir bankahrunið haustið 2008. Ákveðið var að stofna þrjá banka utan um innlendar eignir og skuldir. „Útrásarþátturinn var skorinn af,“ eins og Yngvi Örn Kristinsson orðaði það á Morgunvaktinni þegar hann fór almennt yfir stöðu bankakerfisins og heilsu þess. „Að þessu leyti eru nýju bankarnir traustari, öruggari. Eignirnar eru fyrst og fremst innlendar og ekki mikil alþjóðleg áhætta í bönkunum. Auk þess er mikilvægt að nýju bankarnir tóku við eignum þeirra gömlu á matsverði. Þær voru endurmetnar í ljósi breyttra aðstæðna: falls krónunnar og samdráttar í efnahagskerfinu.“

Skuldir voru afskrifaðar, þannig að eftir stendur nokkuð traust bankakerfi. „Afleiðing af þessu er að vanskilahlutföll í íslenskum bönkum eru tiltölulega lág á alþjóðlegan mælikvarða, og ánægjulegt að þau eru enn á leiðinni niður á sama tíma og vanskilahlutföll fara hækkandi hjá mörgum bönkum í nágrannalöndum okkar á Evrópska efnhagssvæðinu. Bankakerfið er einfaldara, fjármagnað með innlendum sparnaði, og það er búið að hreinsa efnahagsreikninginn vel,“ segir Yngvi Örn.

En fær þetta kerfi þrifist í svona lokuðu umhverfi?  „Það er mikill sparnaður í kerfinu, m.a. frá lífeyrissjóðunum. Þannig að það er nægt innlent fjármagn til að mæta þörfum. Bankarnir hafa þurft að lifa við það á undanförnum árum að hafa lítinn eða engan aðgang að erlendum lánamörkuðum, en þeir eru smám saman að opnast. En ef horft er til lengri tíma, þá þurfa bankarnir auðvitað að hafa slíkan aðgang til þess að geta lánað stærri fyrirtækjum, eins og orkufyrirtækjunum, sem eru með erlenda starfsemi. Auðvitað er það mikilvægur áfangi ef það tekst á næsta ári að afnema höft á fjármagnshreyfingar, og bankarnir fá smám saman aðgang að erlendum mörkuðum“, segir Yngvi Örn Kristinsson.

Á Morgunvaktinni ræddi hann þær aðgerðir sem gripið hefur verið til frá hruni í því skyni að treysta bankakerfið. Hann sagði að Samtök fjármálafyrirtækja hefðu enga sérstaka afstöðu til þess hvort ríkið ætti hlut í viðskiptabönkum, eins og víða er raunin. Aðalatriðið væri að sömu leikreglur giltu fyrir alla og ekki væri um að ræða bein pólitísk inngrip, eins og tíðkuðust áður fyrr á meðan ríkið lék meginhlutverk á bankamarkaðnum.