Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Traust á þjóðkirkjunni minnkar enn

21.02.2011 - 13:58
Mynd með færslu
 Mynd:
Traust landsmanna til Alþingis, þjóðkirkjunnar og borgarstjórnar Reykjavíkur minnkar samkvæmt þjóðarpúlsi Gallups. Landhelgisgæslan, Lögreglan og Háskóli Íslands njóta mests traust þeirra 15 stofnana sem mældar eru. Gallup hefur mælt traust landsmanna á stofnunum árlega í níu ár.

Landhelgisgæslan er með í fyrsta skipti núna og nýtur traust 89% landsmanna, lögreglan 80%, sem er svipað og undanfarin ár og Háskóli Íslands 76%, sem er sama tala og í fyrra, en 90% landsmanna treysti skólanum fyrir þremur árum.


Heilbrigðiskerfið er í fjórða sæti með 74% traust og þar á eftir er embætti sérstaks saksóknara með 69% og hefur hækkað um 12 prósentustig frá í fyrra.


Þjóðkirkjan heldur áfram að falla líkt og undanfarin ár. Nú nýtur hún trausts þriðjungs þjóðarinnar, eða 33%. 16% treysta Borgarstjórn Reykjavíkur. Fyrir þremur árum var traustið aðeins 9%, en hafði farið upp á við í fyrra og hitteðfyrra, en fellur svo aftur niður núna.


Það er ennþá að brattann að sækja fyrir Alþingi. Í febrúar 2008 treysti 40% landsmanna Alþingi, árið eftir dvínaði traustið niður í 13% og nú er það 12%. Bankakerfið situr sem fyrr á botninum, en mjakast þó upp á við. Núna treysta 6% landsmanna því.