Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Trans fólks minnst í Hörpu í dag

20.11.2019 - 09:34
Mynd með færslu
 Mynd: Ugla Stefanía
Minningardagur trans fólks er haldinn í dag með athöfn sem hefst í Hörpu sem skreytt verður litum trans fánans í tilefni dagsins. Þar mun trans fólk, aðstandendur og baráttufólk koma saman í samstöðu og von um bjartari framtíð klukkan 17. „Trans fólk er ekki bara myrt lengst í burtu, morðin eiga sér líka stað í Evrópu,“ segir Ugla Stefanía Jónsdóttir formaður Trans Íslands.

Dagurinn var fyrst haldinn árið 1999 þar sem trans kona að nafni Gwendolyn Ann Smith hélt daginn til að minnast trans konunnar Ritu Hester sem myrt var í Massachusetts í Bandaríkjunum. Síðan þá hefur dagurinn orðið að föstum lið hjá trans samtökum um allan heim og hefur Trans Ísland haldið daginn hátíðlegan frá stofnun félagsins árið 2007. Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir, formaður Trans Íslands, segir að mikið hafi breyst á þeim 12 árum sem dagurinn hefur verið haldinn hátíðlegur hér á landi.

Erfiður en fallegur dagur

„Þegar minningarathöfnin var fyrst haldin voru oft mun minni upplýsingar um morð eða alvarlegt ofbeldi gegn trans fólki en nú er, þar sem slíkt var ekki skráð sérstaklega. Mikið hefur breyst í trans málefnum síðan og hafa ýmis lönd byrjað að skrá hatursglæpi sem þessa sérstaklega og taka betur á þessum þáttum,“ segir Ugla. Minningarathöfnin hefst klukkan 17:00 í Hörpu þar sem trans fánalitunum verður varpað á hjúpinn í tilefni dagsins en dagurinn hefur þannig breyst frá því að minnast einnar manneskju í að minnast allra þeirra sem myrtir eru á hverju ári.

„Nafnalistinn er svo notaður í minningarathöfnum víðsvegar um heim og mun Trans Ísland meðal annars varpa öllum nöfnunum á skjá á meðan á viðburðinum stendur,“ segir hún og viðurkennir að þó að samstaðan sé mikilvæg og veiti styrk þá sé dagurinn þungur og erfiður fyrir allt trans samfélagið. „Enda er það oft þannig að fólk þekki einstaklinga sem hafa verið myrt eða þekki allavega til þeirra. Það er nefnilega ekki þannig að trans fólk sé bara myrt lengst í burtu, það eiga sér líka stað morð í Evrópu.“

Sjálfsvígstíðni hærri hjá trans fólki

Það er þó ekki bara verið að minnast þeirra sem hafa verið fórnarlömb hatursglæpa heldur einnig þeirra sem tekið fyrirfarið sér vegna vanrækslu kerfisins og annarra þátta. „Sjálfsvígstíðni meðal trans fólks er mjög há vegna fordóma og erfiðra aðstæðna,“ segir hún alvarleg. „Það eru ekki nema nokkur ár síðan trans karl fannst látinn á Klambratúni í Reykjavík eftir mikla baráttu við áfengisfíkn og kerfið sjálft. Hann var af erlendum uppruna og gat ekki breytt um nafn og kyn í þjóðskrá.“

Slík sorgartíðindi segir Ugla orsakast að miklu leyti af því að fólk í þessum aðstæðum geti til dæmis ekki leitað til kvennaskýla sökum útlits en ekki heldur karlaskýla sökum lagalegs kyns. Dagurinn stendur Uglu líka nærri af persónulegum ástæðum. „Mjög góð vinkona mín tók eigið líf fyrir rétt einu og hálfu ári og hefur hann því mjög persónulega þýðingu fyrir mér.“

Í norðanverðri Evrópu eru aðstæður trans fólks töluvert betri en víða að sögn Uglu. Hún bendir á að fólk hafi hér á landi til dæmis hlotið lagalega viðurkenningu og aðgengi að heilbrigðiskerfi. „Fordómar eru samt enn þá töluverðir og birtist það í fjandsamlegri fjölmiðlaumræðu, mismunun á vinnumarkaði og félagslegri útskúfun,“ segir hún. „Á Íslandi hefur trans fólk orðið fyrir ofbeldi og mismunun en það eru til dæmis nýleg dæmi um að transkonu hafi verið vísað út af skemmtistað fyrir að vera trans auk þess sem ráðist var nýlega á trans konu í miðbæ Reykjavíkur.“

Mikilvægast að leyfa fólki að vera það sjálft

Dæmin sýna, og Ugla þekkir það vel að eigin sögn, að vanþekking ríki um málefni trans fólks en hún nefnir sérstaklega kynsegin fólk og trans ungmenni. „Þrátt fyrir að lagaleg staða trans fólks hafi bæst til muna með nýjum lögum um kynrænt sjálfræði þá er augljóst miðað við umræður sem spruttu í kjölfarið að enn þarf að halda áfram að vekja athygli á þessum málum og fræða fólk um hina ýmsu þætti.“

Hún biðlar til fólks að nýta daginn til að íhuga málið enda segir hún að samfélagið þurfi að leggja sig mun betur fram til að tryggja réttindi og öryggi allra. „Það er allra mikilvægast að hlusta á og trúa trans fólki. Við þurfum öll að reyna að setja okkur í spor hvers annars og sýna samkennd og virðingu gagnvart öðru fólki. Það kemur enginn út úr skápnum sem trans manneskja í neinu kæruleysi, það er margra ára ferli sem fólk gengur í gegnum hvort sem það er félagslegt, læknifræðilegt eða blanda af hvoru tveggja. Við getum bætt lífsgæði fólks til muna með því að styðja við þau og leyfa þeim að vera þau sjálf.“

Minningarathöfnin hefst í Hörpu þar sem trans fánalitunum verður varpað á hjúpinn í tilefni dagsins. Þaðan verður haldið í Ráðhús Reykjavíkur þar sem Dagur B. Eggertsson tekur á móti hópnum og ávarpar samkomuna. „Stjórn Trans Íslands mun einnig koma fram og verða nokkrar örsögur sagðar frá félagsfólki. Dagskráin endar svo með minningarstund og veitingum í boði Reykjavíkurborgar,“ segir Ugla Stefanía að lokum.

juliame's picture
Júlía Margrét Einarsdóttir
vefritstjórn