Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Trampólín upp um allt í nótt

09.09.2015 - 07:45
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Nóttin var erilsöm hjá björgunarsveitum á höfuðborgarsvæðinu. Trampólín, þakplötur og vinnupallar fuku og tré brotnuðu. Ólöf Snæhólm Baldursdóttir, upplýsingarfulltrúi Landsbjargar, segir að trampólín hafi verið út um allt og upp um allt í nótt.

Ólöf segir að fyrsta útkall hjá björgunarsveitum hafi verið rétt eftir miðnætti. Bæði lögregla, slökkvilið og björgunarsveitir hafi síðan verið að störfum fram eftir nóttu. „Ég held að að flest útköllin hafi verið vegna trampólína og þau voru sko bara uppi í trjám, á bílum, utan á ljósastaurum og útum allt og upp um allt. Þetta er alveg magnað, við getum farið að kalla þetta hið árlega trampólínveður. Það er alltaf verið að vara við þessu að fólk eigi að taka þetta niður eða festa þetta en þetta endar alltaf svona. Já og meirað segja nokkur á hverju hausti svo kemur bara næsta óveður og kannski önnur vindátt og þá fara öll hin af stað. Þetta er alveg langt frameftir hausti og vetri jafnvel að trampólínin eru á ferðinni,“ sagði Ólöf í samtali við Sigmar Guðmundsson á Morgunvaktinni á rás2 í morgun. 

Ólöf segir að það mætti fækka þessum útköllum ef fólk sinnti betur forvörnum. Þá sé of algengt að hringt sé í björgunarsveitir þegar ekki er tilefni til. „Sumt af þessu er óþarfi. Það hefur alveg komið fyrir að þetta eru verkefni sem, hér áður fyrr, fólk hefði bara farið út og leyst sjálft.“ 

Bjarni Pétur Jónsson
Fréttastofa RÚV