„Tortímandinn“ sakfelldur í Haag

08.07.2019 - 12:37
epa07702906 Congolese militia commander Bosco Ntaganda enters the courtroom of the ICC (International Criminal Court) during his trial at the Hague in the Netherlands, 08 July 2019. Reports state that the ICC is expected to pass judgement on Ntaganda, accused of overseeing the slaughter of civilians by his soldiers in the Democratic Republic of Congo in 2002 and 2003.  EPA-EFE/EVA PLEVIER / POOL
 Mynd: EPA-EFE - Reuters
Stríðsherrann Bosco Ntaganda var í dag sakfelldur fyrir Alþjóðlega sakamáladómstólnum í Haag fyrir stríðsglæpi og glæpi gegn mannkyni í Austur-Kongó á árunum 2002-2003. Refsing hans verður ákveðin á næstunni. Hann kann að þurfa að dúsa bak við lás og slá það sem eftir er ævinnar.

Ntakanda fékk á sínum tíma viðurnefnið Tortímandinn þegar sveit uppreisnarmanna framdi ýmis ódæðisverk í átján mánaða baráttu hennar gegn stjórnvöldum í Austur-Kongó. Hann gaf sig fram 2013 og var í kjölfarið fluttur til Haag þar sem réttað var í málum hans.

Ntakanda var ákærður í átján liðum fyrir stríðsglæpi og glæpi gegn mannkyni. Að sögn saksóknara skipulagði hann árásir uppreisnarhreyfingarinnar Lýðræðisfylkingarinnar fyrir frelsun Kongós. Samkvæmt dómnum sem féll í dag var hann gerður ábyrgur fyrir því að liðsmenn hans nauðguðu stúlkum undir lögaldri, hnepptu konur í kynlífsánauð, frömdu fjöldamorð á börnum jafnt sem fullorðnum og skipuðu börnum að ganga til liðs við sig í baráttunni gegn stjórnvöldum.

Ntakanda var sakfelldur fyrir þrettán ákærur af átján. Fyrir rétti kvaðst hann vera hermaður en ekki glæpamaður og honum hefði aldrei fallið við viðurnefnið Tortímandinn.

 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi