Torf, vaxmyndir og endurreisnarmaður úr súkkulaði

Mynd: RÚV / RÚV

Torf, vaxmyndir og endurreisnarmaður úr súkkulaði

23.11.2019 - 09:00

Höfundar

Úngl og úngl-úngl nefnast yfirlitssýningar yfir verk Ólafar Nordal sem standa nú yfir á Kjarvalsstöðum og í Ásmundarsafni. Fáir hafa komið list sinni betur fyrir í almannarými en Ólöf en verk hennar skipa stóran sess í borgarlandslaginu, það stærsta er líklega Þúfan úti á Granda.

Ólöf nam textíllist við Myndlistar- og handíðaskóla Íslands, fór í framhaldsnám til Bandaríkjanna og útskrifaðist frá höggmyndadeild Yale-háskóla 1993. Á yfirlitssýningunni á Kjarvalsstöðum má meðal annars finna verk sem gæti verið frænka Þúfunnar, eða hvað? „Eða litla systir hennar,“ segir Ólöf og hlær. „Þetta er alveg nýtt verk. Við gerðum þetta bara vikuna fyrir opnun. Og þetta er skúlptúr gerður úr torfi. Sem er svolítil tilraun. Að taka svona gamalt efni sem hefur svona mikla sögu og setja það inn í nútímalegt samhengi.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Þúfan úti á Granda.

Ólöf vinnur mikið með þjóðsagnaarf og þjóðlegar hefðir, auk þess sem hún vísar ríkulega í náttúruna. Þetta sameinast í vinnu hennar með torf sem hún mótar í skúlptúra af ýmsum gerðum og stærðum. „Þetta er alveg ótrúlega snjallt efni til að byggja úr.“ En meðferð úr þessum efnivið er ekki kennd í skóla, er það bara sjálflært? „Já, þetta er svo sem engin stjarneðlisfræði en ég gerði í fyrra verkefni sem ég kallaði Tilraun um torf. Og þessi kúla hérna er bara frá því í fyrra,“ segir Ólöf.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ólöf ásamt „litlu systur“ Þúfunnar.

„Þessi sýning er hluti af sýningaröð sem við erum með hér á haustin á Kjarvalsstöðum, þetta er þriðja sýningin í röðinni, þar sem við bregðum upp mynd af ferli starfandi listamanna sem að þegar eiga að baki svolítið massífan feril og eru búin að sýna ákveðin höfundareinkenni,“ segir Ólöf K. Sigurðardóttir sýningarstjóri. „En listamenn sem eru enn að fást við sýn viðfangsefni af fullum þunga og í ákveðinni þróun. Við sjáum ekki tímaröð en við upplifum ákveðna tengingu í hverju rými sem þó flæða hvert inn í annað.“ Ólöf segir pólitískan undirtón í sýningunni en líka mikið af húmor og kaldhæðni í verkunum.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Endurreisnarmaður Ólafar.

Á sýningunni má meðal annars finna verk sem er gert úr súkkulaði frá árinu 1998 sem heitir Corpus dulcis, Hinn sæti líkami. Verkið gerði hún í dymbilvikunni. „Ég var svolítið að velta fyrir mér þessu súkkulaðiáti á páskunum – af því að þetta er náttúrulega fórnarhátíð og vorhátíð - og sem sagt tók þetta alla leið og fórnaði svona fögrum karllíkama,“ segir Ólöf Nordal en fyrirmyndin að verkinu var renaissance-maðurinn, eða endurreisnarmaðurinn. „Ástæðan fyrir því að ég valdi hann er sú að þá verða einhver svona straumhvörf í okkar hugsunarhætti. Við hættum að trúa á guð sem þennan... ja, einn og máttugan, heldur fórum við líka að trúa á manninn og getu mannsins.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ljósmynd af vaxmyndum af Steingrími Hermannssyni og föður sínum Hermanni Jónassyni.

Meðal verka á sýningunni eru ljósmyndir af vaxmyndum sem áttu að leggja grunn að íslensku vaxmyndasafni við stofnun lýðveldis. Þar má sjá Steingrím Hermannsson með styttu af föður sínum, Hermanni Jónassyni, Borghildi Þór Fenger með vaxssteypu af föður hennar, Vilhjálmi Þ. Þór, og að lokum má sjá föður Ólafar, Jón Nordal, ásamt föður sínum, Sigurði Nordal. „Þetta er alveg rosalega krípí,“ segir Ólöf. „Þessi mynd til dæmis af afa mínum, af því að ég náttúrulega þekkti hann, en ég þekkti hann náttúrulega ekki þegar hann var svona ungur. En það er einhvern veginn bara rendurnar í kringum augun. Og það er eitthvað þarna en persónan er algjörlega fjarverandi.“

Yfirlitssýningin tekur líka til Ásmundarsafns þar sem glöggt má sjá fjölbreytnina í þeim efnivið sem Ólöf notast við. „Hugmyndin velur efnið sem ég nota,“ segir Ólöf. Ég náttúrulega í fyrsta lagi lít á mig sem myndhöggvara. Svoleiðis að ég geri klassískar höggmyndir, í gifs og leir og slíkt. Og stein. Og svo hef ég notað mjög mikið ljósmyndamiðilinn. Og 3D animasjón og innsetningar.“

Guðrún Sóley Gestsdóttir ræddi við Ólöfu Nordal í Menningunni.

Tengdar fréttir

Menningarefni

Örugg hátíð í musteri íslenskrar gjörningalistar

Myndlist

Flæddi inn í íslenska sýningarskálann í Feneyjum

Myndlist

Stórmerkileg saga Vasulka-hjónanna

Umhverfismál

Umhverfislistaverkið Þúfa vígt í dag