Tónverk lýðveldissögunnar

Mynd: Shutterstock / Shutterstock

Tónverk lýðveldissögunnar

23.10.2015 - 15:51
Hvaða tónverk hafa markað tímamót á vegferð þjóðarinnar? Þeirri spurningu var varpað fram þegar hálf öld var liðin frá stofnun lýðveldisins. Tíu verk voru valin - en standast þau tímans tönn?

Á fimmtíu ára afmæli lýðveldisins, 1994, ákváðu stjórnendur RÚV að fela tónlistarstjóranum Dr. Guðmundi Emilssyni, að komast að því hvaða tónverk hefðu markað tímamót á vegferð þjóðarinnar. Guðmundur kallaði til þriggja óumdeildra forvígismanna tónsköpunar af eldri kynslóðinni og fól þeim að tilgreina tíu tónverk sem skipt hefðu sköpum frá 1944-94. Dómnefndin vann sjálfstætt og án samráðs. Verkin tíu, sem urðu fyrir valinu, eru harla ólík. Þau voru flutt í þættinum 1994, fyrir rúmum tveimur áratugum.

Guðmundur segir: „Niðurstaða dómnefndar var samt ótrúlega samhljóða - sem í sjálfu sér er áhugavert - frá sjónarmiði tónlistarsagnfræðinga. Næst kallaði ég til tíu ung tónskáld, karla og konur, er voru að hefja vegferð sína í tónsmíðum - og útdeildi þeim þessum tíu tónverkum til íhugunar. Í þættinum hafa tónskáldin ungu alfarið orðið“ - segir Guðmundur um vinnslu þáttarins. Tónskáldin ungu teljast miðaldra í dag og í fremstu viglínu um þessar mundir. 

Með þessum orðum lauk Guðmundur Emilsson þættinum: „Sagan fer sínu fram og lætur sig sjaldnast varða skoðanir og skoðanakannanir á hverri tíð. Ótímabær söguskoðun orkar alltaf tvímælis. Miðevrópskt stórblað leit um öxl árið 1950 og naut fulltingis færustu manna. Dómnefnd sú taldi Picasso, Stravinsky og Valéry vera á meðal tíu merkustu listamanna á fyrri hluta aldarinnar og hitti þar eflaust naglann á höfuðið. En dómnefndin nefndi að auki aðra sjö, sem þykja nú ekki lengur verðskulda setu á heiðursbekk. Sama gildir um þennan þátt, þótt allir hafa lagt sig fram. Hann gefur vart nema vísbendingu um dóm sögunnar. Tónverkin tíu sem hér eru til umræðu marka hins vegar útlínur þeirra helstu breytinga sem orðið hafa á tónsmíðum Íslendinga frá 1944 til 1994, en það var hinn eiginlegi tilgangur þessarar dagskrár."