Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Tónlistin hverfist um tilfinningu

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia commons

Tónlistin hverfist um tilfinningu

15.10.2019 - 13:22

Höfundar

Nú fer að styttast í eina stærstu tónlistarhátíð landsins, Iceland Airwaves. Hátíðin fer fram helgina 6.-9. nóvember, á hinum ýmsu tónleikastöðum í Reykjavík eins og ár hvert og nú hefur Poppland tekið sig til og fjallar um eitt atriði á dag allt þar til herlegheitin skella á, og það er af nógu að taka. Í dag verður tónlistarmaðurinn Cautious Clay tekinn fyrir.

Cautious Clay þessi heitir réttu nafni Joshua Karpeh og er 26 ára bandarískur söngvari, lagahöfundur og plötusnúður. Karpeh fæddist í Cleveland, Ohio en segir heimabæ sinn vera Brooklyn, New York. Hann byrjaði snemma í tónlist, þegar hann var sjö ára gamall fór hann að æfa á klassíska flautu.

Hann spáði mikið í blús og djasstónlist og um það leyti sem hann byrjaði í háskóla bætti hann fjölda annarra hljóðfæra við efnisskrá sína auk þess að fara að leika sér við lagasmíðar og framleiðslu. Hann lauk síðar prófi í djass-fræðum frá George Washington-háskóla og vann sem fasteignasali áður en hann sneri sér alfarið að tónlistinni. 

Tónlistarstíll hans er undir áhrifum frá hipphoppi, R&B, sál og djassi en hann notast bæði við lífræn hljóð og hljóðfæri en einnig rafræn hljóð. Hann spilar á mörg hljóðfæri þar á meðal saxófón, flautu, gítar, bassa, hljómborð og trommur.

„Frá því að ég byrjaði að spila tónlist snerist sköpunin alltaf um tilfinningu,“ segir Cautious Clay í viðtali við veftímaritið Afropunk. „Það er margt í listinni sem þú getur lært með því að æfa eða læra en tilfinningin er ekki eitt af því. Það er eitthvað sem þú verður bara að hafa.“

Hann er afkastamikill tónlistarmaður, en hann semur bæði fyrir sjálfan sig og aðra. Cautious Clay, eins og margir aðrir, byrjaði að fikra sig áfram á tónlistarforritinu SoundCloud en gaf út sína fyrstu þröngskífu Resonance í fyrra og aðra fljótlega á eftir, Blood Type. Þröngskífan Table of Context kom svo út í ár. Þar að auki gerði hann gerði nýverið lag fyrir þriðju þáttaröð 13 Reasons Why og gerði einnig lagið London Boy í samstarfi með Taylor Swift, Jack Antonoff og Sounwave fyrir nýjustu plötu Swift, Lover sem kom út á dögunum. En þar að auki á hann nokkrar vinsælar smáskífur, hans nýjasta Erase kom út í september á þessu ári. 

„Ég var vanur að hugsa um lagasmíðar og framleiðslu sem alveg aðskilda hluti,“ útskýrir hann fyrir blaðamanni Afropunk „en þegar ég lærði að sameina þetta tvennt, gat ég byrjað að búa til tónlist sem raunverulega tengdist fólki.“

Hann hefur verið á tónleikaferðalagi síðustu misseri og spilar á Iceland Airwaves hátíðinni í fyrsta skipti í ár. Hann stígur á svið laugardaginn 9. nóvember.

Tengdar fréttir

Tónlist

Sjö Airwaves atriði sem synd væri að missa af

Tónlist

Booka Shade og samverkamaður Hatara á Airwaves

Tónlist

John Grant og Orville Peck á Iceland Airwaves