Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Tónlist Hildar úr Jókernum lifnar við í vor

Mynd: Joker / Joker

Tónlist Hildar úr Jókernum lifnar við í vor

09.03.2020 - 14:05

Höfundar

Tónlist Hildar Guðnadóttur úr Jókernum lifnar við í vor þegar myndin verður sýnd við undirleik Kvikmyndahljómsveitar Íslands. Guðni Franzson, faðir Hildar, þurfti ekki þurft að hugsa sig tvisvar um þegar honum var boðið að stjórna hljómsveitinni.

Óskarsverðlaunatónlist Hildar Guðnadóttur úr Jókernum þarf vart að kynna fyrir landsmönnum. Á dögunum tilkynntu Warner Brothers tónleikaferðalag um Bretland og Evrópu þar sem tónlist Hildar verður í lifandi flutningi sinfóníuhljómsveitar á meðan horft er á kvikmyndina.

Samkomulag náðist strax

Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson, framkvæmdastjóri SinfoniaNord, kannaði strax hvort mögulegt væri að gera þetta á Íslandi: „Það var bara hálfum degi eftir að ég fór að leita liggur við þá var ég kominn á fund í London og þetta var handsalað.“ Kvikmyndahljómsveit Íslands flytji því Jókerinn „live to film“ í Hörpu og Hofi í vor. Fyrir utan þessa tónleika með Kvikmyndahljómsveit Íslands sé það sama hljómsveitin sem ferðast með tónleikana um Evrópu. 

Mikilvægasta verkefnið til þessa

Hljómsveitin hefur áður tekið sér svipuð verkefni fyrir hendur og má þá nefna Lord of the Rings sýninguna. Þorvaldur segir ekki vera kór í þessari sýningu, annars sé þetta svipuð upplifun. Þetta séu í rauninni magnaðir sinfóníutónleikar með magnaðri bíómynd og sennilega eitt mikilvægasta verkefni hljómsveitarinnar til þessa;  „Þetta er ný tónlist, ný stórstjarna í kvikmyndatónlistarheiminum og það er bara bókstaflega verið að búa til sýninguna núna, þessa live sýningu við myndina“.

Þar með er ekki öll sagan sögð því Guðni Franzson, faðir Hildar, stjórnar hljómsveitinni. Þorvaldur segir valið augljóst og aldrei hafa verið spurningu. Guðni sé mikill reynslubolti og frábær tónlistarmaður.

Þurfti ekki að hugsa sig um tvisvar

Guðni segir að hann hafi ekki þurft að hugsa sig tvisvar um þegar honum bauðst starfið. Hann hafi þó hringt í Hildi og leitað samþykkis, hún hafi gefið grænt ljós og tilfinningin væri góð. 

Guðni er vanur stjórnandi en segir þetta nokkuð frábrugðið þeim verkefnum sem hann hefur tekið að sér áður. Verk margra tónskálda séu skrifuð út áður en nokkur tónn heyrist. Hjá Hildi sé hugmyndin fyrst og fremst í kollinum, svo byrji hún að spila inn og taka upp. „Svo er þessi tónlist Hildar tekin og skrifuð nákvæmlega út og reynt að draga fram í birtuna allt sem hún er að hugsa, svo það verður kannski mitt hlutverk líka að lesa hugsanir,“ segir Guðni en heldur að hann muni eiga frekar auðvelt með að sökkva inn í hennar heim.  

Ótrúleg velgengni

Hann segist jafnvel finna fyrir örlítilli auka pressu þar sem tónskáldið sé dóttir hans. Þegar hann er spurður út í velgengi hennar segir hann þetta ekki að eiga að geta gerst svona og sé í raun alveg fáránlegt. „Við sem erum búin að vera í þessum bransa áratugum saman, þetta hefði aldrei hvarlað að okkur. Eitt prik hér og kannski annað einhvers staðar er normalt en þetta er bara ótrúlegt.“

Hann telur þó ólíklegt að velgengin hafi áhrif á dótturina. Sumir hætti að skrifa eftir að fá Nóbelsverðlaunin og aðrir fái ritstíflu. Hann efast um að það komi fyrir Hildi þar sem tónlist hennar komi innan frá. Hún þurfi þó örugglega tíma til að jafna sig. 

 

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

Faðir Hildar: „Hún fann sína rödd í tónlistinni“

Mynd með færslu

Sjónvarpsfréttir: Hildur Guðna og Óskarsverðlaunin

Menningarefni

Hildur vann Óskarinn fyrst Íslendinga

Kvikmyndir

Hildur Guðnadóttir með „sjö fingur“ á Óskarsstyttunni