Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Tómlegt í hillum verslana – ráðast í brauðbakstur

14.01.2020 - 09:58
Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd
Eftir mikla ófærð og óveður síðustu daga er orðið tómlegt í hillum verslana á norðanverðum Vestfjörðum. Þangað hafa flutningabílar ekki komist og að sama skapi kemst fólk ekki á milli byggðarlaga. Sjoppan er eina verslunin sem selur mat á Flateyri og í þessu tíðarfari komast Flateyingar ekki á Ísafjörð að versla í matinn og því hefur verið brugðið á það ráð í Gunnu kaffi á Flateyri að nýta iðnaðarhrærivélina og baka brauð sem selt er í sjoppunni.

„Við erum bara að bjarga okkur og fórum bara í það að baka brauð, fólk verður að hafa eitthvað að maula á í óveðrinu,“ segir Guðrún B. Guðmundsdóttir, einn eigenda Gunnu kaffis. Brauðið var selt í sjoppunni í gær og aftur var bakað í morgun. Alla jafna er selt brauð frá Ísafirði í sjoppunni.

Veðurviðvörun í gildi

Appelsínugul veðurviðvörun er í gildi á Vestfjörðum og Ströndum og Norðurlandi vestra og um alla Vestfirði er óvissustig vegna snjóflóða og hættustigi hefur verið lýst yfir á einum stað á Ísafirði þar sem eitt fyrirtæki er með hús.

Óveður í heila viku

Guðrún segir að óveðrið núna hafi varað lengur en þau séu vön á þessum slóðum. „Það hefur ekki verið svona langvarandi óveður lengi. Þetta er ábyggilega orðin rúm vika sem að er svona leiðindaveður. Það hefur kannski ekki verið alveg svona slæmt eins og það er búið að vera núna síðustu tvo daga en það er búið að vera leiðindaveður í rúma viku.“ Veðrið núna minnir á gamla tíð, að mati Guðrúnar, að það geisi leiðindaveður marga daga í einu og að ófært sé milli byggðarlaga. Þetta hafi þekkst vel í gamla daga. 

Mynd með færslu
Guðrún Guðmundsdóttir í Gunnu kaffi á Flateyri.